Netverslun eykst í faraldrinum
Líkt og Hagfræðideild greindi frá var kortavelta nokkuð mikil í nóvember þrátt fyrir sóttvarnaraðgerðir og fjöldatakmarkanir í verslunum. Rannsóknarsetur verslunarinnar (RSV) birti gögn um kortaveltu innlendra netverslana* sem nam alls 7,6 mö.kr. í nóvember og jókst um 353% milli ára miðað við fast verðlag. 17% af allri kortaveltu í verslunum í nóvember fór fram í gegnum netið, sem er mikil aukning miðað við fyrri mánuði, og skýrir verulegan hluta aukningarinnar í verslun í nóvember.
Í raf- og heimilistækjaverslunum er netverslun mikil, bæði sem hlutfall af heildarveltu þar, en einnig sem hlutfall af allri netverslun. Í nóvember nam kortavelta raf- og heimilistækjaverslana í gegnum netið 1,6 mö.kr., sem er 18% af samanlagðri kortaveltu netverslana, og 41% af kortaveltu landsmanna í raf- og heimilistækjaverslunum í nóvember.
Svipað hlutfall kortaveltunnar í verslunum með heimilisbúnað fór fram í gegnum netið í nóvember, eða 40%. Í fataverslunum var hlutfall kortaveltu í netverslunum 27% og 6% í stórmörkuðum og dagvöruverslunum. Alls staðar hafði hlutfallið í nóvember aukist miðað við fyrri mánuði.
Í nóvember mældist alls 24% aukning milli ára í kortaveltu í verslunum miðað við fast verðlag og skýrir netverslun 16 prósentustig aukningarinnar. Tilkoma netverslana hefur því eflaust auðveldað mörgum jólainnkaupin og samtímis komið í veg fyrir samdrátt hjá verslunum á þessum neyslumesta tíma ársins.