Munur á atvinnutekjum eftir menntun hefur farið minnkandi
Frá árinu 2000 fram til 2019 hækkuðu atvinnutekjur allra á vinnumarkaði um 214%. Hækkun þeirra sem voru með grunnmenntun var 239%. Atvinnutekjur annarra hópa hækkuðu hins vegar töluvert minna á þessu tímabili. Tekjur þeirra sem voru með starfs- og framhaldsmenntun hækkuðu um 185% og tekjur háskólamenntaðra hækkuðu um 173%.
Á síðustu 20 árum hefur þannig dregið töluvert úr tekjumun miðað við menntunarstig. Á árinu 2000 voru meðaltekjur fólks með grunnmenntun um 75% af meðaltali allra á vinnumarkaði. Á árinu 2019 voru tekjur þessa hóps komnar upp í 81% af meðaltali allra.
Á árinu 2000 var fólk með starfs- og framhaldsmenntun með 2% hærri tekjur en nam meðaltali allra á vinnumarkaði. Á árinu 2019 voru tekjur þessa hóps um 8% lægri en meðaltal allra. Háskólamenntað fólk var með 35% hærri atvinnutekjur en meðaltalið á árinu 2000 og var það hlutfall komið niður í 17% á árinu 2019.
Með öðrum orðum mætti segja að á árinu 2000 hafi háskólamenntað fólk haft 80% hærri atvinnutekjur en fólk með grunnmenntun, en munurinn hafði lækkað niður í 45% 2019. Úr hinni áttinni mætti segja að fólk með grunnmenntun hafi haft 56% af tekjum háskólamenntaðra á árinu 2000 og væri komið upp í 69% 2019.
Sé litið á þróun kynjanna innan þessara hópa kemur í ljós að atvinnutekjur kvenna hafa hækkað meira en karla í öllum hópunum frá 2000 til 2019. Tekjur kvenna með grunnmenntun hækkuðu mest á þessu tímabili, eða um 256%. Karlar með grunnmenntun hækkuðu mest karla, eða um 188%. Háskólamenntaðir karlar hækkuðu minnst allra, eða um 151% á tímabilinu.
Atvinnutekjur kvenna í þessum hópum hækkuðu 20-30% meira en hjá körlum innan sömu hópa. Mestur munur var meðal háskólamenntaðra, en þar hækkuðu atvinnutekjur kvenna um 30% umfram hækkun karla. Tekjur kvenna með grunnmenntun hækkuðu um 24% meira en hjá körlum og tekjur kvenna með starfs- og framhaldsmenntun um 20% meira en hjá körlum.
Ásýndin á þessari þróun er að hún sé frekar í óhag fyrir háskólamenntaða, sérstaklega karla. Tölurnar ná til 2019, en þá um vorið var svokallaður lífskjarasamningur gerður, þar sem mikil áhersla var á meiri launahækkanir til þeirra tekjulægri. Kjarasamningar voru þó ekki gerðir fyrir meginhluta opinberra starfsmanna fyrr en á árinu 2020. Áhrifa þessa samnings fór því ekki að gæta að fullu fyrr en á árinu 2020.
Atvinnuleysi jókst verulega á árinu 2020 og hefur sú þróun eflaust haft einhver áhrif á atvinnutekjur einhverra þessara hópa. En ekki er ólíklegt að þróun atvinnutekna haldi áfram í sömu átt, þ.e. að munurinn eftir menntunarstigi haldi áfram að minnka á næstu árum.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Munur á atvinnutekjum eftir menntun hefur farið minnkandi