Á morgunfundinum var ný þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar Landsbankans til áranna 2018-2020 kynnt. Sérstaklega var fjallað um stöðu ferðaþjónustunnar og Danielle Haralambous, sérfræðingur hjá The Economist Intellegence Unit (EIU), fjallaði um stöðu Íslands í alþjóðlegu samhengi. Fundinum lauk á pallborðsumræðu um stöðu og horfur á íslenskum vinnumarkaði.
Guðmunda Ósk Kristjánsdóttir, viðskiptastjóri á Fyrirtækjasviði Landsbankans, stýrði fundinum.
Tryggja þarf að kjör og kaupmáttur haldi áfram að batna
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, setti fundinn. Hún ræddi m.a. um þær gríðarlegu breytingar sem hafa orðið á íslensku samfélagi undanfarin ár. „Það er líf í miðbænum löngu eftir að flestir Íslendingar eru komnir heim og búnir að kveikja á fréttunum. Þar rölta ferðamenn um í leit að veitingahúsum og þegar ég er niðri í bæ fæ ég það oft á tilfinninguna að þetta sé eins og í útlöndum. Ísland er orðið vinsæll áfangastaður ferðamanna með tilheyrandi áhrifum á verslun, byggingarstarfsemi og að sjálfsögðu ferðaþjónustu,“ sagði hún.
Samfélagið þyrfti að vinna upp ákveðna verkskuld í húsnæðismálum og innviðum um leið og bregðast þyrfti við auknu streymi fólks til landsins. Hreyfingar hefðu orðið á eignarhaldi í sjávarútvegi og lífeyrissjóðir hefðu undanfarið leitað út fyrir landið með nýjar fjárfestingar eða beint fjármagni sínu í lán til einstaklinga. Þá hefði uppbygging undanfarinna ára leitt til umtalsverðrar útlánaaukningar í bankakerfinu. Á sama tíma hefðu verðbréfamarkaðir veikst vegna smæðar. Þar væru fáir virkir þáttakendur og takmarkanir á fjárfestingu erlendra aðila á Íslandi. „Í raun má segja að við höfum gengið í gegnum mikið uppbyggingarskeið á nánast öllum sviðum og það er áskorun að tryggja að kjör og kaupmáttur haldi áfram að batna og skili sér í langvarandi velferð,“ sagði Lilja.
Þjóðhags- og verðbólguspá Landsbankans 2018-2021
Daníel Svavarsson, forstöðumaður Hagfræðideildar Landsbankans, kynnti nýja hagspá sem nær til ársins 2021.
Hann benti á að núverandi hagvaxtarskeið væri nú á sínu áttunda aldursári og ef horft væri á heildarmyndina hefði staða hagkerfisins sjaldan verið betri en nú. „Hagvöxturinn hefur verið sveiflukenndur en meðalhagvöxtur á tímabilinu fram til 2017 var 3,6%. Í fyrra mældist 4% hagvöxtur og á fyrri hluta þessa árs var 4,5% hagvöxtur samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofunnar. Hagvöxturinn hefur verið útflutningsdrifinn með ferðaþjónustuna í fararbroddi en síðustu ár hefur vöxturinn í auknum mæli verið drifinn áfram af miklum vexti fjárfestingar og einkaneyslu.“
Í spá Hagfræðideildar segir að komið sé að ákveðnum vatnaskilum í hagsveiflunni. Eftir langt tímabil þar sem farið hafa saman kröftugur hagvöxtur og lág og stöðug verðbólga, er útlit fyrir að hægja muni verulega á hagvexti á sama tíma og verðbólga eykst. Efnahagshorfurnar eru engu að síður jákvæðar því gert er ráð fyrir hóflegum en viðvarandi hagvexti á spátímanum.
Samkvæmt spá Hagfræðideildar verður hagvöxtur 3,9% á þessu ári, 2,4% á næsta ári, og rúmlega 2% árin 2020 og 2021. Verðbólguhorfur eru talsvert lakari en síðustu ár og er gert ráð fyrir að verðbólgan verði komin í um 3,5% í lok þessa árs en verði að meðaltali um 3,3% á tímabilinu 2019-2021.
Daníel fjallaði ítarlega um þróun einkaneyslu en mikill stígandi var í henni fram á mitt ár 2017. Þrátt fyrir nokkuð kröftugan vöxt í einkaneyslunni á fyrri hluta ársins bentu flestar skammtímavísbendingar til þess að snögghemlun væri framundan í einkaneyslu á seinni hluta ársins. Upplýsingar um greiðslukortaveltu á 3. ársfjórðungi bentu til þess að mjög snögglega hafi hægt á vexti veltunnar og hún hafi aðeins aukist um tæp 3% milli ára. Haldi sú þróun áfram væri það sterk vísbending u.m að verulega hægi á vexti einkaneyslu á seinni helmingi ársins. Spá Hagfræðideildar gerir ráð fyrir að einkaneysla aukist um 4,3% á árinu 2018 og rúmlega 3% á ári að jafnaði næstu þrjú ár á eftir.
Daníel benti einnig á að þrátt fyrir að gert sé ráð fyrir hægari hagvexti næstu ár en síðustu ár væru horfurnar engu að síður góðar og stæðust vel samanburð þegar horft er til hagvaxtarvæntinga í helstu viðskiptalöndum okkar. Þá væri mikil óvissa í spánni nú, ekki síst er varðar verðbólguhorfurnar. Möguleg áföll í ferðaþjónustu gætu haft mikil áhrif á þróun efnahagsmála til lengri og skemmri tíma. Veruleg óvissa væri einnig um niðurstöðu komandi kjaraviðræðna aðila vinnumarkaðarins. „Verði samið um hækkun launa langt umfram framleiðnivöxt í þjóðarbúinu mun verðbólga aukast talsvert meira en gert er ráð fyrir í spá okkar. Ytri áhættuþættir svo sem þróun hrávöruverðs, verðbólgu og hagvaxtar í helstu viðskiptalöndunum eru sem fyrr stórir óvissuþættir í bæði verðbólgu- og þjóðhagsspánni,“ sagði Daníel.
Ferðaþjónustan hefur náð flughæð
Gústaf Steingrímsson, hagfræðingur í Hagfræðideild Landsbankans, fjallaði í erindi sínu um stöðu íslenskrar ferðaþjónustu.
„Eftir ævintýralega mikla fjölgun ferðamanna á síðustu árum hefur greinilega dregið úr fjölguninni á síðustu misserum. Mjög mikil fylgni hefur verið á milli fjölgunar flugsæta til og frá landinu og fjölgunar ferðamanna á 12 mánaða grundvelli og er ljóst að breytileikinn í fjölguninni síðustu misserin skýrist fyrst og fremst af breytingu í sætaframboði,“ sagði hann.
Framboð flugsæta hefði aukist mikið á fyrsta ársfjórðungi 2017 og ferðamönnum fjölgað með svipuðum hætti á því tímabili. Síðan dró verulega úr aukningu sætaframboðs í maí 2017 og fylgdi fjölgun ferðamanna því eftir. Síðan þá hefur fjölgun ferðamanna verið minni en aukning sætaframboðs. Þessi þróun bendi til þess að sætanýting fari versnandi. „Það að sætanýtingin hafi farið versnandi eru ekki góðar fréttir fyrir íslenska ferðaþjónustu því það kann að leiða af sér minni vöxt sætaframboðs eða jafnvel samdrátt á næstu misserum sem myndi að öllum líkindum leiða til fækkunar ferðamanna,“ sagði Gústaf. Á hinn bóginn hefði krónan gefið töluvert eftir á síðustu vikum og ekki verið jafn veik síðan um mitt ár 2016 eða í ríflega tvö ár. „Ef krónan styrkist ekki á ný eða heldur áfram að gefa eftir mun það styðja við aukið framboð flugsæta til landsins á næstu misserum.“
Gústaf benti á að vegna þeirrar sterku fylgni sem er á milli sætaframboðs og fjölgunar ferðamanna væri hægt að skyggnast inn í nánustu framtíð og sjá hver líkleg fjölgun ferðamanna yrði á því tímabili. „Heilt yfir lítur út fyrir áframhaldandi fjölgun ferðamanna á næstu mánuðum. Sætaframboð frá landinu mun vaxa um að meðaltali 18% á 12 mánaða grundvelli frá og með nóvember og fram í mars á næsta ár. Þessi aukning mun ráðast að miklu leyti af töluvert miklum vexti í sætaframboði Icelandair en félagið gerir ráð fyrir að auka sætaframboð sitt á þessu tímabili um að meðaltali 31% til mars á næsta ári. WOW air gerir einnig ráð fyrir nokkrum vexti eða að meðaltali 16%.“
Gústaf sagði töluvert mikla óvissu vera um fjölgun ferðamanna á næstu árum – bæði upp á við og niður á við. Meginóvissuþáttinn væri sætaframboð flugfélaganna sem væri mjög ráðandi þáttur í fjölguninni til skemmri tíma litið. „Það eru blikur á lofti í alþjóðlegum efnahagsmálum og má þar nefna sem dæmi það viðskiptastríð sem hafið er á milli Kína og Bandaríkjanna. Komi til alvarlegt bakslag í efnahagslífi heimsins mun það draga úr vexti ferðaþjónustu í heiminum eins og dæmin sanna. Verulegur efnahagslegur samdráttur er líklegur til að hafa bæði alvarlegri og langvinnari afleiðingar en alþjóðakreppan 2008-2009 hafði. Ástæðan er sú að vegna tiltölulega lágs vaxtastigs beggja vegna Atlantsála er svigrúm seðlabanka til að örva hagvöxt töluvert minna en í síðustu kreppu,“ sagði hann.
Í spá Hagfræðideildar er gert ráð fyrir áframhaldandi fjölgun ferðamanna. Þeim fjölgi um 6% á þessu ári og um 2% á ári til ársins 2021. „Gangi spá okkar eftir gerum við ráð fyrir að gjaldeyristekjur af ferðaþjónustu verði tæpir 590 milljarðar króna árið 2021 borið saman við 501 milljarð króna á síðasta ári en hvort tveggja er á föstu verðlagi og föstu gengi. Vöxturinn á milli þessara ára verður 17% borið saman við spá okkar um vöxt í stóriðju upp á 5% og 9% í sjávaraútvegi. Vægi ferðaþjónustunnar í útflutningi mun því vaxa áfram. Samkvæmt spánni verður útflutningur landsins ríflega 1.300 milljarðar króna árið 2021 sem er um 120 milljörðum króna meira en í fyrra. Við gerum ráð fyrir að um 72% af þeirri aukningu komi til vegna vaxtar í ferðaþjónustu,“ sagði hann.
Ísland í alþjóðlegu samhengi
Danielle Haralambous, sérfræðingur hjá The Economist Intellegence Unit (EIU), fjallaði í erindi sínu um Ísland í alþjóðlegu samhengi.
Danielle sagði ástandið í heimshagkerfinu hafa verið sérstaklega gott á þessu ári. Á næsta ári væri á hinn bóginn von á kólnun, einkum vegna viðskiptastríðsins milli Bandaríkjanna og Kína. Hætta á gjaldeyriskreppum í nýmarkaðsríkjum hefði aukist og búast mætti við hægari hagvexti í Bandaríkjunum.
EIU gerir ráð fyrir að spenna á milli Bandaríkjanna og Kína fari vaxandi og muni leiða til viðskiptastríðs þeirra á milli. Efnahagslegar afleiðingar verði töluverðar og muni koma fram í minni milliríkjaviðskiptum á heimsvísu. Þá gæti stefna Bandaríkjanna leitt til andsvara frá öðrum ríkjum og þar með vaxandi spennu í millríkjaviðskiptum.
Danielle benti á ríki sem reiddu sig í miklum mæli á óhindruð milliríkjaviðskipti væru viðkvæmari en önnur ríki fyrir aukinni verndarstefnu. Þetta ætti sérstaklega við um Norðurlöndin og ekki síst Ísland en hækkun tolla í Bandaríkjunum og möguleg niðursveifla í ríkjum Evrópusambandsins gæti haft hér töluverð áhrif. Þá benti hún á að verð á áli, sem væri mikilvæg útflutningsvara Íslendinga, væri í lækkunarferli og búast mætti við lækkun álverðs á árunum 2019 og 2020.
Danielle ber ábyrgð á umfjöllun EIU um Bretland og Ísland og er forstöðumaður ríkjaskýrslugerðar EIU. Hún fjallaði ítarlega um stöðu samningaviðræðna um brotthvarf Bretlands úr ESB (Brexit). Til skamms tíma mun útganga Bretlands úr ESB og niðursveifla í Bretlandi aðeins draga lítillega úr eftirspurn eftir útflutningsvörum Íslands. Í kjölfar Brexit gerði hún ráð fyrir að Bretland og Ísland myndu reyna að semja um að sem minnstir tollar yrðu lagðir á vöruviðskipti milli landanna tveggja, sérstaklega hvað sjávarafurðir varðar.
Hvað efnahagshorfur á Íslandi varðaði sagði Danielle að EIU byggist við hóflegum hagvexti á næstu árum og að jagvöxtur hér á landi yrði meiri en á hinum Norðurlöndunum.
Pallborðsumræða um stöðu og horfur á íslenskum vinnumarkaði
Flestir kjarasamningar í landinu renna út á tímabilinu frá áramótum til loka mars. Heildarkjarasamningur Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins rennur út um áramót. Síðasta samningstímabil hefur verið sérstakt að því leyti að öll markmið kjarasamninga um kaupmáttaraukningu og stöðugleika í kaupmætti hafa náðst og hefur aukning kaupmáttar á tímabilinu verið nær einstök.
Ætla mætti að ánægja ætti að ríkja með stöðu kjaramála við lok samningstímans, en svo er alls ekki. Þær kröfur sem hafa komið fram við upphaf samningaviðræðna eru meiri en sést hafa í áratugi og beinast jafnt að samtökum atvinnurekenda og ríkissjóði. Sérstaklega hefur verið horft til nýlegra úrskurða kjararáðs í þessu sambandi sem valdið hafa mikilli ólgu.
Um þetta var m.a. rætt í fjörlegum pallborðsumræðum. Þetta var í fyrsta skipti sem Drífa Snædal, nýkjörinn forseti ASÍ, tók þátt í pallborðsumræðu með Bjarna Benediktssyni og Halldóri Benjamín Þorbergssyni.