Minni flugsamgöngur á síðustu tveimur árum hafa dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda
Samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands var losun hitunargilda (CO2-ígilda) frá hagkerfi Íslands 5.505 kílótonn á árinu 2020, sem var 16,3% minni losun en 2019, þegar hún var 6.575 kílótonn. Árslosun 2019 minnkaði einnig frá 2018 og var 13,5% minni en árslosunin 2018. Meginástæða þessa var mikill samdráttur í flugi.
Árið 2018 var stærsta ár sögunnar varðandi komur ferðamanna til Íslands og það markar losunarbókhaldið mikið. Árið 2019 hætti WOW air rekstri, þannig að áhrif farþegaflugs á losun hófust strax þá. 2020 hefur síðan einkennst af áhrifum kórónuveirufaraldursins á flugsamgöngur og einkennandi greinar ferðaþjónustu.
Allt frá upphafi ársins 2019 var ljóst að losun frá flugsamgöngum myndi minnka mikið og þurfti ekki faraldur til. Losun frá flugsamgöngum minnkaði þannig um 36% milli 2018 og 2019 og losun frá stóriðju minnkaði einnig um 9%. Þá minnkaði losun frá flutningum á sjó um 10%. Ástæður þessa voru nokkrar, brotthvarf WOW air, minni framleiðsla og bilanir í álverksmiðjum og almennur samdráttur tengdur þessu. Þarna var því ekki um skipulagðan samdrátt í losun samkvæmt markmiðum að ræða.
Nú hefur Hagstofan birt tölur um losun á öllu árinu 2020. Ef þessir ársfjórðungar eru bornir saman við fyrra ár má sjá að minnkun losunar frá flugsamgöngum skiptir verulegu máli. Losun frá flugsamgöngum á árinu 2020 var einungis um 30% af því sem hún var á árinu 2018, þegar hún var mest. Losun frá flugsamgöngum 2020 varð svo tæplega helmingur af því sem var 2019. Losunin frá stóriðju 2020 var 1,5% meiri en 2019, en um 8% minni en hún var 2018.
Þær sex greinar sem hér hefur verið fjallað um (flugsamgöngur, stóriðja, heimili, landbúnaður, flutningar á sjó og fiskveiðar) losuðu um 86% af heildarmagni losunar hér á landi 2016-2018. Þetta hlutfall lækkaði svo niður í 82% 2019 og 79% 2020 og er skýringin minni flugumferð. Minnkun flugumferðar felur auðvitað í sér að hlutfall annarra greina hækkar, en það á þó ekki við um flutninga á sjó og fiskveiðar þar sem hlutallið lækkaði 2020.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Minni flugsamgöngur á síðustu tveimur árum hafa dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda