Mikilvægi opinberra fjármála – samneysla og opinber fjárfesting
Hlutur samneyslu af vergri landsframleiðslu (VLF) jókst mikið á árinu 2020 og var 27,8. Raunhækkun samneyslu var líka óvenju mikil á árunum 2018-2020, en alls hækkaði hún um 13,4% á þessum árum, eða um 3,4% að meðaltali á ári. Aukning samneyslunnar á árinu 2020 var því ekki meiri en árin á undan, en hún hélt sjó og vel það á meðan aðrar stærðir í hagkerfinu gáfu eftir. Samneyslan hækkaði svo um 1,8% að raungildi á árinu 2021 og var þá 27,4% af VLF.
Meðalhlutur samneyslu af VLF frá aldamótum er 24,5%. Hlutfallið 2020 og 2021 er því hátt í sögulegu samhendi. Samneyslan þróaðist líka með allt öðrum hætti í kórónukreppunni en var í fjármálakreppunni á árunum eftir 2008. Þannig minnkaði samneyslan að raungildi um 7,7% á árunum 2009-2012, en breytingin var svipuð og gilti um landsframleiðsluna alla, þannig að hlutfall samneyslu af VLF lækkaði ekki mikið á þessum árum. Hlutfallið lækkaði hins vegar á árunum á eftir þegar aukning samneyslu varð minni en annarra stærða í landsframleiðslunni.
Fjárfesting hins opinbera jókst um 12,4% milli 2020 og 2021 og var 4,1% af VLF. Næstu tvö ár þar á undan hafði opinber fjárfesting dregist saman um 12,5%. Raungildi opinberra fjárfestinga var því svipað á árinu 2021 og var á árinu 2018. Meðaltal opinberrar fjárfestingar af VLF var 3,8% frá 2000 til 2021 þannig að fjárfestingarstigið í fyrra var eilítið hærra en meðaltalið eftir að hafa verið mun lægra en árin tvö þar á undan.
Frá aldamótum hefur raungildi opinberrar fjárfestingar aukist um 3% á ári að meðaltali. Sveiflurnar eru hins vegar mjög miklar. Mest jókst opinber fjárfesting um tæp 39% á árinu 2018 og mest minnkaði hún um rúm 40% á árinu 2012. Frá aldamótum hefur opinber fjárfesting minnkað 11 sinnum milli ára.
Á árinu 2019 boðaði ríkisstjórnin mikið fjárfestingarátak sem einkum átti að beinast að innviðum og átti að koma inn á tímum þegar ætla mætti að draga myndi verulega úr fjárfestingu atvinnuveganna. Þetta átak náði því miður aldrei því flugi sem því var ætlað sem m.a. má sjá á því að fjárfestingin minnkaði bæði 2019 og 2020.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Mikilvægi opinberra fjármála – samneysla og opinber fjárfesting