Mikill vöxtur í flestum atvinnugreinum
Velta í virðisaukaskattsskyldri atvinnustarfsemi hér á landi nam alls 936 mö.kr. í september og október í fyrra samkvæmt nýlega birtum gögnum Hagstofu Íslands og jókst um 19% milli ára miðað við fast verðlag. Þetta er fjórða uppgjörstímabilið í röð sem vöxtur milli ára mælist eftir samfellt samdráttarskeið allt frá miðju ári 2019. Nokkuð snarpur viðsnúningur virðist því hafa átt sér stað upp úr miðju síðasta ári þar sem kröftugur vöxtur tók við af samdrættinum sem rekja mátti til minni eftirspurnar vegna faraldursins.
Séu fyrstu 10 mánuðir ársins 2021 bornir saman við sama tímabil árið 2020 mælist 13% raunvöxtur milli ára í allri virðisaukaskattsskyldri veltu. Sé aftur á móti miðað við árið 2019, fyrir faraldur, mælist veltan nokkuð svipuð að raunvirði, eða 0,3% minni. Við sjáum því vísbendingar um að atvinnuvegir séu heilt yfir að rétta nokkuð vel úr kútnum og komast á sama stað og var fyrir faraldur, þó þróunin sé mjög ólík eftir einstaka atvinnugreinum. Mestu munar hjá fyrirtækjum sem starfa í ferðaþjónustu. Þar mælist samdráttur mælist 63% milli ára sé miðað við fyrstu 10 mánuði ársins 2019 en 74% vöxtur milli áranna 2020 og 2021.