Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali um 1,6% milli febrúar og mars sem er mesta hækkun sem hefur sést milli mánaða síðan í maí 2017. Verð á fjölbýli hækkaði um 1,46% og verð á sérbýli hækkaði um 1,54%. 12 mánaða hækkun íbúðaverðs mælist nú 8,9% og hefur ekki verið hærri síðan í febrúar 2018.
Mikil umræða hefur verið um aukna spennu á íbúðamarkaði. Sölutími hefur styst, mánaðarleg velta er mikil og hátt hlutfall íbúða selst yfir ásettu verði. Nýjustu tölur HMS benda til þess að 25% íbúða í fjölbýli seljist nú yfir ásettu verði og um 28% í sérbýli. Til samanburðar var hlutfallið 13% á sérbýli fyrir ári síðan og 11% á fjölbýli. Síðast þegar svo hátt hlutfall seldist yfir ásettu verði voru sömuleiðis miklar hækkanir á íbúðaverði. Tölur marsmánaðar koma því ekki á óvart. Það hefði jafnvel mátt búast við þessum hækkunum fyrr, en hækkunin milli mánaða í febrúar var aðeins 0,6% og aðeins 0,1% í janúar.
Í mars var 971 kaupsamningur undirritaður samkvæmt bráðabirgðatölum frá Þjóðskrá en þeir voru til samanburðar 620 talsins í mars í fyrra og 633 í mars árið 2019. Fjöldi undirritaðra kaupsamninga í hverjum mánuði hefur aukist um allt að 57% milli ára og er nú er orðið svipaður því sem sást síðast árið 2007.
Það er líklegt að þessi mikla eftirspurn sem nú er til staðar sé tímabundin vegna lágra vaxta og þeirra aðstæðna sem Covid-faraldurinn hefur skapað þar sem ferðalög og tækifæri til neyslu eru takmörkuð. Húsnæði hefur löngum verið talið örugg fjárfesting og nú þegar vextir eru lágir og sparnaður hefur aukist, leitar hluti þess fjármagns inn á húsnæðismarkað.