Mikið að gerast á fasteignamarkaði um land allt
Fasteignamarkaður hefur mikið verið til umræðu upp á síðkastið og er það ekki bara fasteignamarkaður höfuðborgarsvæðisins sem er líflegur, heldur hafa viðskipti aukist og verð hækkað í nær öllum þéttbýliskjörnum landsins. Samkvæmt nýjustu mælingu Hagstofunnar á íbúðaverði um land allt sem birtist í gær, mælist 12 mánaða hækkun nú 13% á landinu. Hækkanir hafa aukist stöðugt síðan í haust og eru farnar að hafa talsverð áhrif á verðbólgu.
Árborg sker sig úr í samanburði milli þéttbýliskjarna á landinu þar sem íbúðaverð hækkaði um 21% milli ára á fyrsta fjórðungi ársins og 12% milli ára á fjórða ársfjórðungi síðasta árs. Í báðum tilfellum voru hækkanir talsvert meiri en annars staðar. Á höfuðborgarsvæðinu hækkaði íbúðaverð um 8,5% milli ára á fyrsta fjórðungi þessa árs og 7% milli ára á fjórða fjórðungi árs í fyrra samkvæmt Þjóðskrá.
Í Reykjanesbæ mælist næstmest hækkun íbúðaverðs milli ára, tæp 9% milli ára á fyrsta fjórðungi ársins, sem er mikil hækkun í ljósi þess að atvinnuleysi mælist einna mest þar. Það er greinilegt að eftirspurn er engu að síður mikil eftir húsnæði sem gæti verið til marks um það að væntingar séu miklar um blómlegt atvinnulíf og fólksfjölgun á svæðinu þegar faraldrinum linnir og atvinnuástand kemst í samt horf.