Methækkanir á verði sjávarafurða
Verð sjávarafurða lækkaði töluvert eftir að faraldurinn hófst og náði lágmarki á þriðja fjórðungi 2020. Eftir það fór verðið fljótlega að hækka aftur og hefur hækkað hratt á þessu ári á 12 mánaða grundvelli. Hækkunin mældist 19,4% á fyrsta ársfjórðungi og 22,8% á öðrum fjórðungi. Verðið hækkaði nokkuð síðustu árin fyrir faraldur og náði tímabundnu hámarki á fyrsta ársfjórðungi 2020. Verðið í dag er 21,5% hærra í dag en þá.
Þessa verðþróun á sjávarafurðum má einfaldlega skýra með mikilli hækkun á matvælaverði almennt. Heimsmarkaðsverð á matvælum er í dag tæplega 40% hærra en á fyrsta ársfjórðungi 2020. Það er mjög mikil hækkun á svo skömmum tíma. Matvælaverð lækkaði nokkuð á þriðja fjórðungi og skiptir þar nánast ekki máli hvar borið er niður. Mesta lækkunin var á matarolíu en þar lækkaði verðið um 29% milli fjórðunga. Þar á eftir kom korn sem lækkaði um 13,5%. 7,3% lækkun var á sykri en mjólkurvörur og kjöt lækkuðu minnst. Mjólkurvörur lækkuðu um 1,9% og kjöt um 1,4%. Verð á íslenskum sjávarafurðum hækkaði hins vegar um 4,5% milli sömu tímabila.
Þessi mikla hækkun á verði sjávarafurða helst að einhverju leyti í hendur við verðþróun á fiski eins og hún er mæld í neyslukörfu helstu viðskiptalanda. Verð á kældum fiski var 12% hærra á þriðja fjórðungi en á sama tímabili í fyrra. Franski markaðurinn hefur síðustu ár verið stærsti markaðurinn fyrir kældan botnfisk frá Íslandi. Þar hafði verðið hækkað um 16,4% milli sömu tímabila. Bandaríski markaðurinn er næststærstur en þar hefur verðið hækkað um 11%. Verðið hefur hækkað um 9,2% á breska markaðnum sem er sá þriðji stærsti. Aðrir stórir markaðir með kældan íslenskan fisk eru t.d. Belgía og Þýskaland en í Belgíu er verðið 12,7% hærra en 15,8% hærra í Þýskalandi.
Hækkandi verð á íslenskum sjávarafurðum líkt og nú sést eru jákvæð tíðindi fyrir íslenskt hagkerfi og viðskiptakjör hér á landi almennt. Bætt viðskiptakjör, sem í þessari þróun felst, hefur styrkjandi áhrif á krónuna sem hefur verið að veikjast að undanförnu.