Mesta árshækkun launavísitölu í 5 ár
Launavísitalan hækkaði um 0,3% milli janúar og febrúar samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 10,6%, sem er mesta ársbreyting frá því í ágúst 2016.
Vísitala neysluverðs hækkaði 4,1% milli febrúarmánaða 2020 og 2021. Launavísitalan hækkaði um 10,6% á sama tímabili þannig að kaupmáttaraukningin á milli ára er mikil, eða 6,7%.
Kaupmáttur launa er því áfram mikill í sögulegu samhengi þrátt fyrir aukna verðbólgu á síðustu mánuðum. Kaupmáttarvísitala hefur aukist nokkuð í upphafi árs og var kaupmáttur launa í febrúar 3,3% meiri en í apríl 2020, þegar hann varð hæstur á síðasta ári.
Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum frá 4. ársfjórðungi 2019 fram til sama tíma 2020 sést að launin á almenna markaðnum hækkuðu um 6,4% á þessum tíma og um 9,8% á þeim opinbera, 8,3% hjá ríkinu og 11,4% hjá sveitarfélögunum. Mæld launavísitala hækkaði um 7,2% á sama tíma.
Atvinnuleysi jókst mikið á síðustu mánuðum ársins 2020, en hefur væntanlega náð hámarki og er farið að lækka eilítið aftur. Skráð almennt atvinnuleysi var 11,4% í febrúar og atvinnuleysi vegna hlutabóta 1,1%. Heildaratvinnuleysi var því 12,5% í febrúar og lækkaði um 0,3 prósentustig frá janúar.
Ef horft er á launaþróun í fyrri kreppum má sjá að sú jákvæða launaþróun sem við sjáum nú er ekki beint í takt við slakan vinnumarkað. Launahækkanir nú í byrjun árs hafa verið miklar og kaupmáttarstig sögulega hátt.
Þessi staða er dálítið sérstök og ný í íslenskri hagsögu. Í kreppum til þessa hefur kaupmáttur launa yfirleitt lækkað verulega, en atvinnustigið haldið nokkuð vel. Lengi vel tókst okkur að vernda atvinnustigið í kreppum en á kostnað hærri verðbólgu. Í síðustu tveimur kreppum hefur orðið breyting á hvað það varðar.