Meirihluti útistandandi íbúðalána nú verðtryggður
Frá miðju síðasta ári hafa ný hrein íbúðalán bankanna til heimila aukist lítillega. Aukningin er nánast að öllu leyti vegna aukinnar lántöku á verðtryggðum íbúðalánum, en hrein ný lántaka óverðtryggðra íbúðalána er neikvæð, sem þýðir að heimilin hafi frekar greitt upp óverðtryggð lán heldur en tekið ný. Háir vextir hækka afborganir af óverðtryggðum lánum töluvert meira en af verðtryggðum og fjöldi fólks sem gat tekið óverðtryggt lán fyrir tveimur árum getur það ekki í dag vegna hárra afborgana.
Hækkandi vaxtastig dró úr umsvifum á íbúðamarkaði og hrein ný lántaka dróst saman um 60% milli ára. Hrein ný útlán bankanna námu 4,6 mö.kr í desember, þar sem hrein ný verðtryggð lán námu 16,2 mö.kr en óverðtryggð lán voru greidd upp fyrir 11,6 ma.kr., að frádregnum þeim sem voru veitt.
Séu hrein ný íbúðalán lífeyrissjóða og banka tekin saman sést sama þróun. Frá apríl í fyrra hafa hrein ný óverðtryggð íbúðalán verið neikvæð, þar sem ný óverðtryggð lán eru veitt fyrir lægri upphæð en sem nemur uppgreiðslum slíkra lána. Ný íbúðalán banka og lífeyrissjóða drógust nokkuð saman í desember síðastliðnum, en ný útlán að frádregnum uppgreiðslum námu 10,3 mö.kr. í desember en 20,2 mö.kr. í nóvember.
Meirihluti útistandandi íbúðalána verðtryggð
Í byrjun árs 2019 var hlutfall útistandandi íbúðalána á verðtryggðum vöxtum 77% á móti 23% hlutfalli óverðtryggðra lána. Með lækkandi stýrivöxtum jókst hlutfall óverðtryggðra lána og í ágúst 2021 var yfir helmingur útistandandi íbúðalána á óverðtryggðum vöxtum. Þá stóðu stýrivextir í 1,25% og höfðu þá hækkað frá lægstu stýrivöxtum frá upphafi, eða 0,75%, frá aprílmánuði þess árs. Hlutfall óverðtryggðra íbúðalána náði hámarki um mitt síðasta ár þegar þau voru 56% útistandandi lána. Eftir því sem stýrivextir hafa hækkað hefur verðtryggðum lánum fjölgað á kostnað óverðtryggðra. Stýrivextir voru síðast hækkaðir í ágúst og standa nú í 9,25%. Hlutfall verðtryggðra lána heldur áfram að hækka og frá því í október í fyrra hefur meirihluti útistandandi íbúðalána heimila verið verðtryggð.