Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Meiri hag­vöxt­ur ef loðna finnst

Hafrannsóknarstofnun leggur til að ekki verði gefinn út loðnukvóti fyrir veiðitímabilið 2024/2025. Ráðgjöfin verður uppfærð í janúar, þegar nýjar mælingar fara fram og því er ekki útséð um loðnuveiðar á næsta ári. Fyndist loðna í nægilegu magni hefði það töluverð áhrif á hagvöxt á næsta ári. Loðna hefur verið veidd hér á landi frá árinu 1962 og aðeins þrisvar orðið algjör loðnubrestur, árin 2019, 2020 og nú síðast í ár. 
Fiskveiðinet
22. október 2024

Loðna er næstmikilvægasta fiskitegundin sem Ísland flytur út á eftir þorski og því getur loðnubrestur haft allnokkur áhrif á landsframleiðslu. Hafrannsóknarstofnun mat stærð veiðistofns nú um 307 þúsund tonn, en þegar tekið er tillit til metins afráns fram að hrygningu í mars voru ekki taldar nægilegar líkur á því að stærð hrygningarstofnsins yrði yfir viðmiðunarmörkum. Því lagði stofnunin til engar veiðar á veiðitímabilinu 2024/2025. Til samanburðar var stærð veiðistofnsins á sama tíma í fyrra metinn um 325 þúsund tonn og ráðlagði Hafrannsóknarstofnun þá heldur engar veiðar. Þrátt fyrir aukaleiðangra fyrr á þessu ári fannst ekki nægilegt magn af loðnu sem leiddi til þess að ekkert var veitt á síðasta veiðitímabili og þar með ekkert á yfirstandandi ári.  

Loðnuveiðar mikið breyst  

Loðna hefur verið veidd hér á landi frá árinu 1962 og aðeins þrisvar orðið algjör loðnubrestur, árin 2019, 2020 og nú síðast 2024. Miklar sveiflur hafa verið í útgefnum kvóta og sum ár mjög lítið veitt og önnur mjög mikið eða allt að 1.300 þúsund tonn.

Mikið var veitt af loðnu á árunum 1977 og fram til ársins 2008. Það ár lét loðnan ekki sjá sig í rannsóknarleiðöngrum og stefndi því í loðnubrest árið 2009, á versta tíma. Þá var þó gefinn út takmarkaður rannsóknarkvóti fyrir 15 þúsund tonnum. Frá 2010 til 2018 hefur svo verið gefinn út loðnukvóti samkvæmt ráðleggingum Hafrannsóknarstofnunar, en aflinn hefur verið nokkuð minni að meðaltali en hann var áratugina á undan.  

Hrognin verðmætasti hluti loðnunnar  

Síðasta áratug hefur loðna nánast eingöngu verið veidd fyrstu þrjá mánuði hvers árs, en þá mánuði er loðnan hrognafull. Hrognin eru verðmætasti hluti loðnunnar og verðmæti aflans því hámarkað með því að veiða loðnuna á því tímabili. Hlutfall hrogna af heildarafla eykst því jafnan þegar aflinn er minni. Magn loðnuhrogna af heildarloðnuafla hefur aukist jafnt og þétt frá árinu 1993, þrátt fyrir að heildarafli sé minni nú en þá. Sem dæmi var heildarloðnuafli 326 þúsund tonn árið 2023, og þar af voru hrogn um 25 þúsund tonn. Árið 1994 var heildarloðnuafli 754 þúsund tonn en þar af voru hrognin aðeins 5 þúsund tonn. Það er því orðið algengara að hrognin séu nýtt, en það gæti verið merki um aukna eftirspurn eftir loðnuhrognum á mörkuðum og að vinnsluaðferðum hefur farið fram. Langstærsti hluti loðnuaflans er svo unninn í mjöl og lýsi sem skilar töluverðum verðmætum, en kílóverðið af þeirri framleiðslu er þó lægra en af hrognum. 

Ekki útséð um loðnuveiðar 

Ekki er þó með öllu útséð um loðnuveiðar á næsta ári, en ráðgjöfin verður uppfærð í janúar eftir nýjar mælingar Hafrannsóknarstofnunar. Í fyrra var farið í aukaleiðangur snemma í desember, að frumkvæði og á kostnað útgerða uppsjávarskipa, en ekki fannst næg loðna í þeim leiðangri. Stofnunin fór í sinn venjubundna leiðangur í janúar, en auk þess var farið í annan aukaleiðangur í byrjun febrúar, sem var aftur kostaður að hluta til af útgerðum. Loðnan lét ekki sjá sig. Það má því gera ráð fyrir að aftur verði farið í aukaleiðangra í vetur, enda til mikils að vinna. 

Frá árinu 1991 hefur Hafrannsóknarstofnun 13 sinnum gefið upphafsráðleggingar um enga loðnuveiði. Algjör loðnubrestur aðeins orðið 3 sinnum á því tímabili, 4 sinnum ef við teljum 2009 með, en þá var sem fyrr segir gefinn út lítill rannsóknarkvóti. Það er því ekki útilokað að það finnist loðna í nægjanlegu magni. Það má þó einnig hafa í huga að þau þrjú ár sem algjör loðnubrestur varð voru á síðustu 5 árum.  

Loðnuveiðar geta haft töluverð áhrif á hagvöxt  

Í nýrri hagspá gerum við ekki ráð fyrir loðnuvertíð í upphafi næsta árs. Það má þó velta því upp hversu mikil áhrif það hefði ef loðna fyndist í veiðanlegu magni, til dæmis ef aflinn yrði hóflegur til meðalstór. Áhrifin af því á hagvöxt næsta árs gætu orðið töluverð, á bilinu 0,5 til 1 prósentustig. Í spánni gerum við ráð fyrir 2,3% hagvexti á næsta ári, en ef loðna finnst gæti hagvöxtur orðið á bilinu 2,8 til 3,3%, að öðru óbreyttu. 

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
13. nóv. 2025
Spáum 4,3% verðbólgu í nóvember
Við spáum því að verðbólga standi óbreytt á milli mánaða og mælist 4,3% í nóvember. Flugfargjöld til útlanda verða til lækkunar á vísitölunni, en reiknuð húsaleiga og matarkarfan verða til hækkunar. Við búumst við aukinni verðbólgu á næstu mánuðum.
Hverasvæði
10. nóv. 2025
Raungengi enn í hæstu hæðum
Raungengi krónunnar er mjög hátt í sögulegu samhengi en hefur gefið lítillega eftir á allra síðustu dögum. Horfur í álútflutningi eru dræmar eftir bilun hjá Norðuráli og aflaheimildir gefa fyrirheit um samdrátt í útflutningi sjávarafurða. Ferðaþjónusta hefur vaxið umfram væntingar það sem af er ári og telja má horfur á vexti í nýjustu útflutningsstoðum Íslands. Velta samkvæmt VSK-skýrslum hefur þróast með svipuðum hætti í útflutningsgeiranum og í innlenda hagkerfinu, en ávöxtun hlutabréfa félaga í kauphöllinni með tekjur í erlendri mynt er mun lakari en fyrirtækja með tekjur í íslenskum krónum.
10. nóv. 2025
Vikubyrjun 10. nóvember 2025
Fáar áhugaverðar hagtölur voru birtar í síðustu viku, en í þessari viku birtir Vinnumálastofnun skráð atvinnuleysi og Ferðamálastofa birtir ferðamannatölur. Uppgjörstímabilið fyrir þriðja ársfjórðung er í fullum gangi.
Byggingakrani og fjölbýlishús
6. nóv. 2025
Óvissa á íbúðamarkaði og takmarkaðar raunverðshækkanir í kortunum 
Hátt vaxtastig og ströng lánþegaskilyrði hafa slegið verulega á verðhækkanir á íbúðamarkaði. Á sama tíma hefur fjöldinn allur af nýjum íbúðum risið og sölutími þeirra lengst til muna. Eftir að dómur Hæstaréttar í vaxtamálinu féll hafa viðskiptabankarnir tekið lánaframboð til endurskoðunar og það sama má segja um suma lífeyrissjóðina. Seðlabankinn ákvað í síðustu viku að slaka lítillega á lánþegaskilyrðum.  
3. nóv. 2025
Mánaðamót 1. nóvember 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Fataverslun
3. nóv. 2025
Vikubyrjun 3. nóvember 2025
Verðbólga jókst umfram væntingar í október og mældist 4,3%. Svo mikil hefur verðbólga ekki verið síðan í febrúar síðastliðnum. Telja má áhyggjuefni að aukin verðbólga skýrist ekki af tilfallandi sveiflukenndum liðum heldur virðist undirliggjandi verðþrýstingur hafa aukist. Í þessari viku halda félög áfram að birta uppgjör og hugsanlega má búast við fleiri púslum í breytta mynd af framboði íbúðalána í kjölfar vaxtamálsins.  
Smiður
31. okt. 2025
Minnkandi spenna á vinnumarkaði og minni fólksfjölgun
Eftirspurn eftir vinnuafli hefur minnkað og dregið hefur úr hækkun launa. Atvinnuleysi hefur aukist smám saman og rólegri taktur í atvinnulífinu hefur endurspeglast í hægari fólksfjölgun. Kaupmáttur hefur aukist jafnt og þétt og við teljum að þótt hægi á launahækkunum komi kaupmáttur til með að aukast áfram á næstu árum. Mikill kraftur er í neyslu landsmanna, kortavelta eykst sífellt og Íslendingar hafa aldrei farið í fleiri utanlandsferðir.
Paprika
30. okt. 2025
Verðbólga jókst umfram væntingar
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,47% á milli mánaða í október og verðbólga jókst úr 4,1% í 4,3%. Vísitala neysluverðs hækkaði meira en við bjuggumst við, ekki síst reiknuð húsaleiga og verð á mat og drykk. Skammtímaspá okkar gerir nú ráð fyrir að verðbólga haldist í 4,3% út árið, en aukist svo í janúar og mælist 4,5%.
27. okt. 2025
Vikubyrjun 27. október 2025
Íslenska hagkerfið verður í hægum vaxtartakti á næstu árum gangi hagspá sem við birtum í síðustu viku eftir. Á fimmtudag koma verðbólgutölur fyrir október og við eigum von á að verðbólga hækki úr 4,1% í 4,2%.
Hagspá október 2025
22. okt. 2025
Kólnandi kerfi en kraftmikil neysla
Hagvöxtur verður 1,5% á þessu ári og 1,7% á því næsta, samkvæmt nýrri hagspá Landsbankans. Hagvöxtur verður ekki síst drifinn áfram af neyslu innanlands en á sama tíma er útlit fyrir smám saman minnkandi spennu í atvinnulífinu. Verðbólga reynist áfram þrálát næstu misseri og ekki eru horfur á að hún komist niður í markmið Seðlabankans á spátímabilinu. Því má áfram búast við háum raunstýrivöxtum.