Verðbólga kom þægilega á óvart í ágúst og hjaðnaði þvert á spár. Hún fór úr 4,0% í 3,8% á milli mánaða en við höfðum spáð því að hún stæði í stað. Flugfargjöld til útlanda lækkuðu meira í ágúst en við bjuggumst við og útsölur gengu ekki jafn hratt til baka og við gerðum ráð fyrir.
Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti þann 20. ágúst að stýrivöxtum yrði haldið óbreyttum í 7,50% eftir fimm vaxtalækkanir í röð. Ákvörðunin var viðbúin, enda hafði verðbólga lítið hjaðnað frá maíákvörðun nefndarinnar og taldar horfur á að hún myndi aukast á komandi mánuðum. Eftir nýja verðbólgumælingu fyrir ágústmánuð eru horfur óneitanlega lítillega bjartari, en við spáum nú 4,0% verðbólgu í september og október og 3,8% verðbólgu í nóvember og desember.
Landsframleiðsla dróst saman um 1,9% á öðrum ársfjórðungi þessa árs, samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar. Vegna grunnáhrifa frá síðasta ári var viðbúið að annar ársfjórðungur yrði sá veikasti á árinu hvað varðar hagvöxt og að jafnvel myndi mælast samdráttur. Samdrátturinn var þó meiri en við bjuggumst við. Á fyrri helmingi ársins er áætlað að landsframleiðslan hafi verið 0,3% meiri en á fyrri helmingi síðasta árs. Framlag utanríkisviðskipta var neikvætt og hafði þó nokkur áhrif á heildartöluna, en á móti kom aukin fjárfesting og meiri einkaneysla en á sama tíma í fyrra.
Áfram má greina þó nokkurn neyslukraft í hagkerfinu en kortavelta landsmanna hélt áfram að aukast að raunvirði í síðasta mánuði, auk þess sem utanlandsferðum Íslendinga fjölgar stöðugt. Gengið hefur haldist stöðugt og sterkt á síðustu vikum, og engin augljós teikn eru á lofti um að það gefi snarlega eftir, nema vangaveltur um að svo hátt raungengi sé ósjálfbært til lengri tíma.
Enn virðist hafa færst aukin ró yfir íbúðamarkað og húsnæðisverðbólgan er aðeins örlítið meiri en almenn verðbólga. Nafnverðið er 4,2% hærra en á sama tíma í fyrra. Íbúðafjárfesting virðist hafa tekið að dragast saman á öðrum ársfjórðungi eftir samfellda aukningu frá miðju ári 2023.
Lesa fréttabréfið í heild:
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).









