Losun gróðurhúsalofttegunda hefur minnkað mikið síðustu tvö ár
Losun hitunargilda (CO2-ígilda) frá hagkerfi Íslands á þriðja ársfjórðungi 2020 var 20,6% minni en losun á sama ársfjórðungi 2019. Meginstæða þessa var mikill samdráttur í flugi vegna kórónuveirufaraldursins. Losunin á þriðja ársfjórðungi 2020 var 13,6% meiri en losun á öðrum ársfjórðungi 2020 en þá var hún sögulega lág.
Nú hefur Hagstofan birt tölur um losun á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2020. Ef þessir ársfjórðungar eru bornir saman við þrjá fyrstu fjórðunga síðustu ára má sjá að veruleg minnkun losunar frá flugsamgöngum heldur áfram með sama hætti og var í fyrra. Þannig var losun frá flugsamgöngum á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2020 einungis um 37% af því sem hún var á árinu 2018, þegar hún var mest. Losunin frá stóriðju hélt áfram að minnka á fyrstu þremur fjórðungum ársins en þó minna en árið á undan. Þannig var losun frá stóriðju fyrstu þrjá fjórðunga 2020 um 90% af því sem var 2018.
Minnkun losunar í flugsamgöngum og stóriðju skiptir ekki miklu máli varðandi þau markmið í loftslagsmálum sem þjóðin hefur tekið á sig. Bókhald um losun gróðurhúsalofttegunda er flókið, t.d. varðandi uppsprettu losunarinnar og skuldbindingar ríkja. Þannig eru alþjóðaflug og alþjóðasiglingar undanskildar skuldbindingum ríkja í Kýótóbókuninni. Sumt fellur undir skuldbindingar sem íslensk stjórnvöld bera beina ábyrgð á, annað undir samevrópskt viðskiptakerfi með losunarheimildir (ETS) og enn annað heyrir undir alþjóðlegar stofnanir, t.d. á sviði flugmála og siglinga. Þannig heyrir stóriðja undir ETS, og þar bera fyrirtækin sjálf ábyrgð á losun sinni og þurfa að útvega sér heimildir til losunar, t.d. með kaupum á markaði. Losun alþjóðaflugs er enn sem komið er sér á parti og heyrir ekki undir íslensk stjórnvöld.
Frá 1995 hefur hlutfallsleg losun hefur aukist langmest í ferðaþjónustu og akstri ferðamanna, en þar var losunin á árinu 2019 um 24 sinnum meiri en á árinu 1995. Næstmesta aukningin var í landflutningum og geymslu, 15 sinnum meiri 2019 en var 1995.
Stór hluti losunar gróðurhúsalofttegunda innan íslenska hagkerfisins heyrir ekki beint undir stjórnvöld hér á landi. Baráttan gegn losun snýr því meira að greinum sem losa minna. Þá kemur það heldur ekki á óvart að mikill vöxtur í ferðaþjónustu skapaði mikla aukningu í losun gróðurhúsalofttegunda á sínum tíma, og má þar sérstaklega benda á flug og akstur innanlands. Þegar ferðaþjónustan nær sér aftur á strik er viðbúið að sú saga endurtaki sig.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Losun gróðurhúsalofttegunda hefur minnkað mikið síðustu tvö ár