Loðnuveiðar hefjast á ný eftir tveggja ára hlé
Síðustu ár hefur staðan í loðnuveiðum verið mjög sérstök. Engar veiðar voru heimilaðar undanfarin tvö ár en frá árinu 1963, þegar loðnuveiðar hófust hér við land og til ársins 2018, hafði það aldrei gerst áður. Árið 2018 veiddu íslensk skip rúmlega 186 þúsund tonn. Loðnuveiði hefur farið minnkandi síðasta aldarfjórðunginn. Þegar mest var voru veiddar um 1,3 milljónir tonna árið 1997. Árin 2016-2018 voru veiðar á bilinu 101-197 þúsund tonn.
Hagvöxtur úr 3,4% niður í 3,3%
Í þjóðhagsspá okkar frá því í október gerðum við ráð fyrir að loðnuveiðar á þessu ári yrðu um 100 þúsund tonn og byggðum það á góðri nýliðun síðustu ára. Nú stefnir hins vegar í að veiðar verði minni og hagvöxtur sömuleiðis. Við spáðum 3,4% hagvexti á þessu ári í þjóðhagsspánni. Verði veiðar í samræmi við núverandi ráðgjöf fer vöxtur útflutnings samkvæmt spá okkar úr 7,4% niður í 7% og hagvöxtur úr 3,4% í 3,3%, að öðru óbreyttu.