Líflegur íbúðamarkaður um land allt
Líkt og minnst hefur verið á í fyrri Hagsjám Hagfræðideildar færðist talsverður kraftur í íbúðamarkað höfuðborgarsvæðisins á seinni hluta síðasta árs, í kjölfar vaxtalækkana. Hækkanir náðu þó einnig til annarra þéttbýlissvæða á landinu og hækkaði íbúðaverð á bilinu 4-8% milli ára, mest um 8,2% í Árborg. Á Akureyri, í Árborg og á höfuðborgarsvæðinu mældist alls staðar meiri hækkun milli ára í fyrra en árið áður. Á Akranesi og í Reykjanesbæ mældist örlítið minni hækkun.
Þrátt fyrir þá kreppu sem nú ríkir hefur íbúðasala verið mikil. Á landinu öllu seldust 12.568 íbúðir í fyrra sem er mesti fjöldi sem hefur selst á einu ári síðan 2007. Á höfuðborgarsvæðinu seldust 8.403 íbúðir, eða 17% fleiri en árið áður. Hlutfallslega varð aukningin mest á Vesturlandi þar sem 531 kaupsamningar voru undirritaðir í fyrra, eða 26% fleiri en árið áður. Á Norðurlandi eystra, Suðurlandi og Suðurnesjum seldust alls staðar um 1.000 íbúðir, sem er aukning um 10-18% milli ára. Það er því ljóst að þó sums staðar hægi á verðhækkunum og staða atvinnu- og efnahagsmála hafi versnað virðist áhugi almennt mikill á íbúðakaupum um land allt.
Við greindum frá því á dögunum að hlutfall íbúða sem seljast yfir ásettu verði hefur aukist verulega á höfuðborgarsvæðinu og ekki mælst hærra síðan 2017, en 22% íbúða seldust yfir ásettu verði undir lok síðast árs samanborið við 8% árið áður. Gæti það verið vísbending um að spenna sé að aukast og gera megi ráð fyrir frekari verðhækkunum á næstu mánuðum.
Staðan virðist ekki hafa breyst með jafn afgerandi hætti utan höfuðborgarsvæðisins hvað þennan mælikvarða varðar. Um 9% fasteigna seldust yfir ásettu verði þar undir lok síðast árs sem er 1-3 prósentustigum lægra en hlutfallið árið áður, eftir því hvort horft er til nágrennis höfuðborgarsvæðisins eða annarra staða á landsbyggðinni.