Leiga heldur ekki í við þróun íbúðaverðs
Líkt og tíðrætt hefur verið virðist ekkert lát á hækkunum íbúðaverðs um þessar mundir og er íbúðaverð meðal annars orðin ein helsta orsök aukinnar verðbólgu. Staðan er þó allt önnur á leigumarkaði þar sem mun hóflegri verðhækkanir sjást og í einhverjum tilfellum hefur leiguverð samkvæmt nýjum samningum lækkað. Til lengri tíma litið fylgjast þessar stærðir þó yfirleitt að og er því ekki ólíklegt að annað hvort hægi á hækkunum fasteignaverðs eða leiguverð taki við sér til þess að jafnvægi náist að nýju.
Nýjustu gögn um verðþróun á leigumarkaði eiga við ágústmánuð þar sem 12 mánaða hækkun leigu samkvæmt nýjum samningum mælist 3,5%. Á sama tíma hefur almennt verðlag í landinu án húsnæðis hækkað um 3,3% og raunhækkun leiguverðs, þ.e. hækkun leigu umfram annað verðlag, mælist því 0,2%. Frá því í maí 2020 hefur mælst nær stöðug lækkun milli ára á leigu umfram almennt verðlag. Mest var lækkunin í febrúar, 7% milli ára. Að jafnaði hefur raunverð leigu lækkað um 2,2% milli ára á fyrstu 8 mánuðum árs. Á sama tíma mælist veruleg hækkun á íbúðaverði umfram almennt verðlag og mældist 12 mánaða raunhækkun íbúðaverðs í fjölbýli 11,3% núna í ágúst. Við sjáum muninn á leigu- og kaupverði íbúða aukast sem gerir það að verkum að arðsemi þess að kaupa íbúð til þess að leigja hana út hefur að líkindum minnkað.