Launavísitalan hækkar jafnt og þétt
Launavísitalan hækkaði um 0,4% milli maí og júní samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 7,7%, sem er eilítið hærri árstaktur en verið hefur síðustu mánuði.
Launavísitalan hækkaði um 3,7% í janúar vegna áfangahækkana í kjarasamningum og hefur nú hækkað um samtals 5,5% á fyrstu sex mánuðum ársins. Ekki hefur verið um almennar launahækkanir að ræða samkvæmt kjarasamningum síðan í janúar og kjarasamningsbundnar hækkanir verða ekki aftur fyrr en í janúar 2022. Út frá því hefði mátt ætla að launaþróun væri á rólegum nótum um þessar myndir og staðan yrði þannig út árið. Viðvarandi 0,4% launahækkun á mánuði samsvarar hins vegar tæplega 5% launahækkun á einu ári þannig að það er langt frá því að markaðurinn sé rólegur.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 4,3% milli júnímánaða 2020 og 2021. Launavísitalan hækkaði um 7,7% á sama tímabili þannig að kaupmáttaraukningin á milli ára var 3,3%.
Kaupmáttur launa er því áfram mikill í sögulegu samhengi þrátt fyrir töluverða verðbólgu á síðustu mánuðum. Kaupmáttarvísitalan hefur lækkað eilítið frá því í janúar og var kaupmáttur launa í júní 0,8% lægri en í janúar, en þá var kaupmáttur í sögulegu hámarki.
Í apríl 2020 hækkuðu laun nær allra í landinu vegna kjarasamninga. Á þeim tímapunkti má segja að opinberi markaðurinn hafi unnið upp þá töf sem orðið hafði á kjarasamningsbundnum launahækkunum miðað við almenna markaðinn. Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum frá apríl 2020 fram til sama tíma 2021 sést að launin á almenna markaðnum hækkuðu um 5,8% á þessum tíma og um 11,1% á þeim opinbera, 9,9% hjá ríkinu og 12,6% hjá sveitarfélögunum. Mæld launavísitala hækkaði um 7,4% á sama tíma.
Opinberi markaðurinn hefur þannig verið leiðandi í launabreytingum á tímabilinu, þrátt fyrir að staða kjarasamningagerðar hafi jafnast.
Að öllu þessu sögðu er niðurstaðan áfram sú að launabreytingar eru nokkuð stöðugar nú um stundir og meiri en ætla mætti vegna stöðunnar í hagkerfinu og kjarasamninga.