Launavísitalan hækkaði um 0,3% í ágúst og heldur siglingu sinni áfram
Launavísitalan hækkaði um 0,3% milli júlí og ágúst samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 7,9%, sem er eilítið hærri árstaktur en verið hefur síðustu mánuði.
Launavísitalan hækkaði um 3,7% í janúar vegna áfangahækkana í kjarasamningum og hefur nú hækkað um samtals 5,7% á fyrstu átta mánuðum ársins. Ekki hefur verið um almennar launahækkanir að ræða samkvæmt kjarasamningum síðan í janúar og kjarasamningsbundnar hækkanir verða ekki aftur fyrr en í janúar 2022. Það sem af er ári hefur verið talsverð hreyfing á launavísitölunni upp á við, en miðað við stöðuna mætti ætla að launaþróun væri á rólegum nótum um þessar mundir og staðan verði mögulega svipuð út árið.
Vísitala neysluverðs hækkaði um 4,3% milli ágústmánaða 2020 og 2021. Launavísitalan hækkaði um 7,9% á sama tímabili þannig að kaupmáttaraukningin á milli ára var 3,5%. Kaupmáttur launa er því áfram mikill í sögulegu samhengi þrátt fyrir töluverða verðbólgu á síðustu mánuðum. Kaupmáttarvísitalan hefur lækkað eilítið frá því í janúar og var kaupmáttur launa í júlí 1,2% lægri en í janúar, en þá var kaupmáttur í sögulegu hámarki.
Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum milli 2. ársfjórðungs 2020 og 2021 sést að launin á almenna markaðnum hækkuðu um 5,8% á þessum tíma og um 12,1% á þeim opinbera, 10,5% hjá ríkinu og 14,1% hjá sveitarfélögunum.
Opinberi markaðurinn hefur þannig verið leiðandi í launabreytingum á tímabilinu, þrátt fyrir að staða kjarasamningagerðar hafi jafnast. Munurinn milli markaða virðist vera að aukast. Á þessu ári hefur hluti hækkunarinnar á opinbera markaðnum komið til vegna vinnutímastyttingar líkt og gerðist á almenna markaðnum í fyrra. Áhrif styttingar vinnutíma eru hins vegar ekki metin inn í launavísitölu nema þau séu talin ígildi launahækkana.
Frá nóvember 2019 til júní 2021 eru áhrif styttingar vinnuviku talin vera um 0,9 prósentustig á almennum vinnumarkaði, 2,7 prósentustig hjá ríkisstarfsmönnum og 3,0 prósentustig hjá starfsfólki sveitarfélaga.
Í september 2021 skal launa- og forsendunefnd lífskjarasamningsins meta hvort forsendur um kaupmátt launa, vexti og þær stjórnvaldsákvarðanir, lagabreytingar og fjármögnun sem heitið var í yfirlýsingum ríkisstjórnar hafi staðist. Tilkynna skal ákvörðun nefndarinnar fyrir lok september.
Ekki er búist við að mikill ágreiningur verði uppi að þessu sinni og útlit er fyrir að nefndin nái samkomulagi um að forsendur hafi staðist. Verði staðan sú mun lífskjarasamningurinn gilda til 1. nóvember 2022.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Launavísitalan hækkaði um 0,3% í ágúst og heldur siglingu sinni áfram