Launavísitalan hækkaði um 0,3% milli janúar og febrúar samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 7,3%, sem er sami árstaktur og verið hefur síðustu þrjá mánuði.
Síðustu tvær áfangahækkanir kjarasamninga komu til framkvæmda 1. janúar 2021 og 2022 og var hækkun launavísitölunnar 3,7% í bæði skiptin. Nú í febrúar var hækkun vísitölunnar sú sama og í febrúar fyrra, 0,3%. Árshækkunartaktur launa hefur verið vel yfir 7% allt frá lokum árs 2020 sem er töluvert hærra en hefur verið frá miðju ári 2017. Töluverð hreyfing er því sífellt á launaþróun og áfangahækkanir vegna kjarasamninga hafa að undanförnu einungis skýrt um helming hækkunar launa.
Verðbólga í febrúar 2022 mældist 6,2% en árshækkun launavísitölunnar um 7,3%. Kaupmáttur launa jókst því um 1,1% milli febrúarmánaða 2021 og 2022 þrátt fyrir óvenju mikla verðbólgu. Kaupmáttur í febrúar var sá næst hæsti í sögunni. og kaupmáttur launa er því áfram nokkuð stöðugur og sterkur þrátt fyrir þau áföll sem efnahagslífið hefur orðið fyrir.
Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum milli 4. ársfjórðungs 2020 og 2021 sést að laun á almenna markaðnum hækkuðu áfram mun minna en á þeim opinbera. Launin hækkuðu um 6,4% á almenna markaðnum á þessum tíma og um 10% á þeim opinbera, þar af 9,3% hjá ríkinu og 10,8% hjá sveitarfélögunum.
Milli 4. ársfjórðungs 2020 og 2021 hækkuðu laun áberandi mest í veitinga- og gististarfsemi, eða um 9,9%. Á hinum endanum er fjármála- og vátryggingarstarfsemi með 4,1% hækkun. Á þessu tímabili hækkaði launavísitalan fyrir allan vinnumarkaðinn um 7,5%. Á þessum tölum má glöggt sjá áhrif krónutöluhækkana á launaþróun. Í greinum þar sem laun eru almennt lág hækka þau hlutfallslega mikið og minna í greinum þar sem laun eru hærri.
Nú er orðið ljóst að hagvaxtarauki lífskjarasamninganna mun virkjast í ár sem felur í sér að grunnlaun munu hækka þann 1. maí á öllum vinnumarkaðnum. Samkvæmt niðurstöðum Hagstofunnar hækkaði verg landsframleiðslu á mann um 2,5% á milli 2020 og 2021. Miðað við það hækka taxtalaun samkvæmt lífskjarasamningnum um 10.500 krónur á mánuði en almenn launahækkun er 7.875 krónur á mánuði.
Þessi niðurstaða kemur sumum spánskt fyrir sjónir, þar sem meðalhagvöxtur áranna 2020 og 2021 var að meðaltali neikvæður um 1,9% og meðaltal breytingar landsframleiðslu á mann neikvæð um 3% þessi tvö ár.