Launasumma hefur dregist saman – en misjafnlega eftir greinum
Launasumman, staðgreiðsluskyld laun allra á vinnumarkaði, hækkaði um 0,3% milli ára í janúar. Launavísitalan hækkaði um 10,3% á sama tíma þannig að heildarlaunatekjur landsmanna hækkuðu alls ekki í sama mæli og t.d. föst mánaðarlaun á þessum tíma. Vísitala neysluverðs hækkaði um 4,3% á þessum tíma þannig að launasumman hefur lækkað töluvert að raungildi.
Sé litið á þróun launasummunnar innan fimm atvinnugreina á milli janúarmánaða 2020 og 2021 kemur alls ekki á óvart að ferðaþjónustan hefur mjög mikla sérstöðu. Launasumman í einkennandi greinum ferðaþjónustu lækkaði um næstum helming á milli ára. Á hinum endanum eru opinber stjórnsýsla (með fræðslustarfsemi, heilbrigðis- og félagsþjónustu) og sjávarútvegur (veiðar og vinnsla saman) með 16% og 24% aukningu launasummu milli ára.
Hér er um bráðabirgðatölur að ræða og því mögulegt að tölur fyrir grein eins og sjávarútveg eigi eftir að breytast.
Þeim sem fengu staðgreiðsluskyldar greiðslur í janúar 2021 fækkaði um 6,9% milli ára. Það er mun minna en sem nam minnkun launasummunnar í heild sem bendir til þess að tekjulægra fólk hafi í meira mæli horfið af vinnumarkaði en það sem hafði hærri tekjur. Myndin fyrir ferðaþjónustuna er sú sama, en þar hefur þeim sem fá staðgreiðsluskyldar greiðslur fækkað um 48%, sem er svipað og nam minnkun launasummunar í greininni. Af þessum greinum er það einungis í opinberri stjórnsýslu sem launafólki fjölgar.
Þeim sem fá staðgreiðsluskyldar greiðslur á vinnumarkaðnum öllum fjölgaði um 7,6% frá 2015 til 2020, en þróunin innan einstakra greina var mismunandi. Nær stöðug fjölgun hefur verið í opinberri stjórnsýslu og var launafólk þar um 15% fjölmennara en var 2015. Ferðaþjónustan og fjármálastarfsemin enda á sama stað miðað við upphafspunkt með tæplega 10% fækkun á tímabilinu. Leiðin á milli punktanna var hins vegar mjög mismunandi þar sem launafólk í ferðaþjónustu var tæplega 40% fleira 2018 en 2015 og fækkaði síðan mjög mikið.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Launasumma hefur dregist saman – en misjafnlega eftir greinum