Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Laun hækk­að um tæp 11% á síð­ustu 12 mán­uð­um

Launavísitalan hækkaði um 1,1% í júní og vegna þess hversu lítið verðlag hækkaði jókst kaupmáttur. Atvinnuleysi hélt áfram að dragast saman, enda árstíðabundin eftirspurn eftir starfsfólki í ýmsum greinum. Örlítið kann þó að vera að draga úr eftirspurn eftir starfsfólki.
Bakarí
26. júlí 2023

Hækkun vísitölu launa á ársgrundvelli nam 10,9% í júní, samkvæmt mælingum Hagstofunnar, og vísitalan hækkaði um 1,1% á milli mánaða. Hækkunin skýrist sennilega að mestu af kjarasamningsbundnum hækkunum, en kjaraviðræður hluta félaga BSRB teygðust fram í júnímánuð.

Kaupmáttur jókst um 0,3% í júní en var 1,8% meiri en í júní í fyrra, ólíkt því sem verið hefur síðustu mánuði, þegar ársbreyting kaupmáttar hefur ýmist verið neikvæð eða sáralítil. Stökkið skýrist aðallega af því að verðbólgan var mun minni í júní á þessu ári en í júní í fyrra. Nú má þó búast við að hægi á hækkun launavísitölunnar þar til næstu kjarasamningar verða undirritaðir, líklega eftir aðeins örfáa mánuði.

Nýjustu gögn yfir launahækkanir eftir atvinnugreinum og starfsstéttum ná yfir aprílmánuð. Á tímabilinu frá apríl í fyrra til apríl á þessu ári hækkuðu laun mest í veitinga- og gistigeiranum, um 12,4%, og næst mest í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, um 11,6%. 

Í samræmi við það hækkuðu laun mest hjá verkafólki, um 11,7%, og þeim sem starfa við þjónustu-, sölu- og afgreiðslustörf, um 11,6%. Samanburðurinn verður þó líklega áhugaverðari og marktækari þegar allar kjarasamningsbundnar hækkanir verða komnar inn í vísitölurnar.

Atvinnuleysi 2,9% í júní

Atvinnuleysi var 2,9% í júní, samkvæmt skráningu Vinnumálastofnunar, og fór úr 3,0% í maí. Atvinnuleysi er almennt minnst á sumrin og hugsanlegt að áfram dragi úr því í júlí.

Árstíðasveiflur skýrast meðal annars af auknum umsvifum ýmissa atvinnugreina á sumrin, ekki síst í ferðaþjónustu og byggingariðnaði. Það var einmitt í ferðaþjónustu sem atvinnulausum fækkaði mest í mánuðinum, en einnig þó nokkuð í verslun og vöruflutningum.

Eftirspurn eftir starfsfólki nokkuð stöðug

Rúmlega 43% stjórnenda fyrirtækja telja ekki vera nægt framboð af starfsfólki og um 57% telja framboðið nægilegt, samkvæmt könnun sem Gallup gerir ársfjórðungslega fyrir Seðlabankann. Nýjustu niðurstöður voru birtar í lok júní og hlutföllin breyttust lítið frá því í apríl, þótt örlítið virðist hafa dregið úr spennu.

Í niðurstöðum könnunarinnar má einnig sjá niðurbrot eftir atvinnugreinum þar sem stjórnendur eru spurðir hvort þeir hafi í hyggju að fjölga starfsfólki á næstu sex mánuðum, eða fækka. Í langflestum greinum er hlutfall fyrirtækja sem vilja fjölga starfsfólki lægra en það hefur verið allt síðasta árið, sem kann að vera merki um lítillega rólegri vinnumarkað. Hlutfallið er hæst í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, þótt það hafi lækkað frá því í apríl. Hlutfallið hefur lækkað um u.þ.b. helming í samgöngum, flutningum og ferðaþjónustu, enda var það sérstaklega hátt í apríl þegar sumarið var fram undan.

Mikil óvissa um næstu mánuði

Kaupmáttur er betri mælikvarði á lífskjör en laun, því launahækkanir einar og sér segja lítið um ávinninginn af þeim ef verð á vöru og þjónustu breytist líka. Þróun kaupmáttar ræðst af hækkunum verðlags annars vegar og launa hins vegar. Þegar verðlag hækkar meira en laun dregst kaupmáttur saman, en þegar launin hækka meira eykst hann.

Verðbólgan fór úr 8,9% í 7,6% í júlí og við búumst við að hún hjaðni hægt og rólega á næstu mánuðum. Launahækkanir vegna nýrra kjarasamninga hafa komið smám saman inn í launavísitöluna síðustu mánuði en viðbúið er að nú hægi á hækkuninni, þar til aðilar vinnumarkaðarins hefjast handa við að undirrita nýja kjarasamninga eftir örfáa mánuði. Harkan í viðræðunum hlýtur að velta að miklu leyti á því hvort verðbólgan hjaðni áfram og hvort fólk hafi trú á að áfram dragi úr henni. Ef verðlag heldur áfram að hækka hefur launafólk hvata til að krefjast meiri launahækkana til þess að verja kaupmáttinn.

Þróun verðbólgunnar veltur svo að hluta til á því um hversu miklar launahækkanir verður samið. Að gefnu verðlagi hafa hærri laun þau áhrif að kaupgeta almennings eykst og þar með eftirspurnin. Einnig vilja fyrirtæki hærra verð fyrir vörur ef launakostnaður hækkar. Spennustigið á vinnumarkaði hefur líka áhrif á kjaraviðræður. Mikil eftirspurn eftir starfsfólki bætir samningsstöðu launafólks en ef vaxta- og launahækkanir draga úr getu fyrirtækja til að bæta við starfsfólki er hugsanlegt að atvinnuleysi aukist og spennan minnki. Seðlabankinn hefur varað við því að víxlverkun launa og verðlags geti fests í sessi og þróunin á næstu mánuðum fer ekki síst eftir því hvort sú verði raunin.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
27. okt. 2025
Vikubyrjun 27. október 2025
Íslenska hagkerfið verður í hægum vaxtartakti á næstu árum gangi hagspá sem við birtum í síðustu viku eftir. Á fimmtudag koma verðbólgutölur fyrir október og við eigum von á að verðbólga hækki úr 4,1% í 4,2%.
Hagspá október 2025
22. okt. 2025
Kólnandi kerfi en kraftmikil neysla
Hagvöxtur verður 1,5% á þessu ári og 1,7% á því næsta, samkvæmt nýrri hagspá Landsbankans. Hagvöxtur verður ekki síst drifinn áfram af neyslu innanlands en á sama tíma er útlit fyrir smám saman minnkandi spennu í atvinnulífinu. Verðbólga reynist áfram þrálát næstu misseri og ekki eru horfur á að hún komist niður í markmið Seðlabankans á spátímabilinu. Því má áfram búast við háum raunstýrivöxtum.
Greiðsla
20. okt. 2025
Vikubyrjun 20. október 2025
Kortavelta Íslendinga jókst um 7,6% að raunvirði á milli ára í september. Á fyrstu níu mánuðum ársins hefur kortavelta heimila verið um 5,2% meiri en á sama tímabili í fyrra, að teknu tilliti til verðlags og gengis. Í vikunni birtir Greiningardeild Landsbankans nýja hagspá til ársins 2028. HMS birtir vísitölu íbúðaverðs, vísitölu leiguverðs og mánaðarskýrslu.  
Flugvél
16. okt. 2025
Spáum 4,2% verðbólgu í október
Við spáum því að verðbólga aukist lítillega í október, úr 4,1% í 4,2%. Mest áhrif til hækkunar á vísitölunni hafa flugfargjöld til útlanda, reiknuð húsaleiga og matarkarfan. Gangi spáin eftir verður október níundi mánuðurinn í röð þar sem verðbólga er á bilinu 3,8% til 4,2%. Við teljum að verðbólga verði áfram á þessu bili næstu mánuði.
Fjölskylda við matarborð
13. okt. 2025
Vikubyrjun 13. október 2025
Peningastefnunefnd hélt vöxtum óbreyttum í síðustu viku, eins og við var búist. Þó mátti greina aukna bjartsýni í yfirlýsingu nefndarinnar. Skráð atvinnuleysi var 3,5% í september og jókst um 0,1 prósentustig á milli mánaða. Brottförum erlendra ferðamanna um Keflavíkurflugvöll fjölgaði um 0,5% í september og utanlandsferðum Íslendinga fjölgaði um 14%.
Play
6. okt. 2025
Vikubyrjun 6. október 2025
Fall Fly Play hf. var stærsta fréttin í síðustu viku. Um 400 manns misstu vinnuna og má búast við að atvinnuleysi aukist um um það bil 0,2 prósentustig þess vegna. Við búumst ekki við verulegum þjóðhagslegum áhrifum af falli Play. Peningastefnunefnd kemur saman á miðvikudaginn og við búumst við að stýrivöxtum verði áfram haldið í 7,50%.  
Seðlabanki Íslands
2. okt. 2025
Þrálát verðbólga kallar á óbreytta vexti
Við spáum því að peningastefnunefnd haldi stýrivöxtum óbreyttum í næstu viku. Verðbólga hefur haldist á þröngu bili í kringum 4% frá því í febrúar og horfur eru á nær óbreyttri verðbólgu á næstu mánuðum. Áfram má greina skýr merki um þenslu í hagkerfinu og nær óhugsandi að peningastefnunefnd telji tímabært að halda vaxtalækkunarferlinu áfram. 
1. okt. 2025
Mánaðamót 1. október 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Íbúðahús
29. sept. 2025
Vikubyrjun 29. september 2025
Verðbólga mældist í takt við væntingar í september og fór úr 3,8% í 4,1%, samkvæmt vísitölu neysluverðs, sem Hagstofan birti í síðustu viku. Aukin verðbólga var fyrirséð og mælingin ber þess ekki merki að verðbólguþrýstingur í hagkerfinu hafi aukist. Kaupmáttur launa er 3,8% meiri en í ágúst í fyrra.
Litríkir bolir á fataslá
25. sept. 2025
Verðbólga eykst í takt við væntingar
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,11% á milli mánaða í september og verðbólga jókst úr 3,8% í 4,1%. Hækkunin skýrist að langmestu leyti af því að lækkunaráhrif gjaldfrjálsra skólamáltíða duttu nú úr 12 mánaða taktinum. Fátt í septembermælingunni kom á óvart en við spáðum 0,07% hækkun á vísitölunni og 4,1% verðbólgu. Við gerum ráð fyrir að verðbólga verði áfram á þessu bili út árið og verði 4,0% í árslok.