Laun hækkað langmest í veitinga- og gistigeiranum
Spenna á vinnumarkaði hefur ýtt undir launaþrýsting síðustu mánuði. Atvinnuleysi minnkaði hratt eftir að faraldrinum linnti og mælist enn lítið, 3,2% í október. Launavísitalan hefur hækkað um 10,9% á síðustu tólf mánuðum. Hún hækkaði mest í desember eftir að kjarasamningar á stórum hluta vinnumarkaðarins voru samþykktir, svo aftur þó nokkuð í apríl og júní þegar gengið var frá fleiri kjarasamningum.
Kaupmáttur launa hefur aukist um 2,7% á síðustu tólf mánuðum. Á fyrstu mánuðum ársins rýrnaði kaupmáttur milli ára. Hann tók að sækja aftur í sig veðrið með hjaðnandi verðbólgu á seinni hluta ársins og hefur nú aukist síðustu fimm mánuði.
Launaþróun ólík eftir hópum
Laun hafa hækkað mismikið eftir starfstéttum og atvinnugreinum síðustu misseri. Til þess að bera saman launaþróun ólíkra hópa á vinnumarkaði er ágætt að horfa á þróunina frá því rétt áður en lífskjarasamningarnir voru samþykktir snemma árs 2019 og þar til nýjustu kjarasamningar höfðu verið undirritaðir á langstærstum hluta vinnumarkaðar, í júlí síðastliðnum. Nýjustu gögn Hagstofunnar um launaþróun ólíkra hópa ná einmitt fram í júlímánuð.
Á því tímabili (mars 2019 – júlí 2023) hafa laun hækkað mest í greinum tengdum veitinga- og gistirekstri, um 54,9%. Laun hafa hækkað næstmest í verslunum og viðgerðaþjónustu, um 40,2%, og minnst í fjármála- og vátryggingastarfsemi, um 30,0%.
Í takt við þetta hafa laun hækkað hlutfallslega mest meðal þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks, um 48,5%, og meðal verkafólks, um 48,2%. Stjórnendur hafa hækkað hlutfallslega minnst í launum á tímabilinu, um 27,4%, og sérfræðingar næstminnst, um 33,4%.
Að meðaltali hefur kaupmáttur launa aukist um 10,1% á tímabilinu frá mars 2019 til september 2023. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 28% á tímabilinu og kaupmáttur aukist hjá nær öllum hópum, þó mjög lítið meðal sérfræðinga og rýrnað lítillega meðal stjórnenda.
Þessi munur á launuþróun ólíkra starfstétta og atvinnugreina er ekki tilviljun. Á tímabilinu sem hér er til skoðunar hefur markmið kjarasamninga, sérstaklega lífskjarasamninganna, verið að hækka hlutfallslega mest laun þeirra sem hafa lægstu launin, svo sem með krónutöluhækkunum og þaki á launahækkanir. Á sama tíma hefur verið kröftug eftirspurn eftir starfsfólki í greinum tengdum ferðaþjónustunni, svo sem gisti- og veitingarekstri, sem ýtir sérstaklega undir launahækkanir í þeim geira, og minnst eftirspurn eftir starfsfólki í fjármála- og tryggingastarfsemi. Um þessar mundir virðist eftirspurn eftir starfsfólki þó mest í byggingariðnaði.
Hlutfallsleg launaþróun ólíkra hópa hefur þó verið þó nokkuð jafnari eftir síðustu kjaraviðræður en á tímabilinu frá 2019 og fram að síðustu áramótum. Í lok janúar losna kjarasamningar á stærstum hluta vinnumarkaðarins eftir stutt samningstímabil. Í nýlegri þjóðhagsspá spáðum við því að laun myndu hækka um 9,4% á þessu ári og um 7,9% á næsta ári. Við spáðum svo hófstilltari hækkunum árin á eftir, 7,0% árið 2025 og 6,1% árið 2026. Samkvæmt spánni eykst kaupmáttur um 0,6% á þessu ári, um 2,4% á næsta ári og um 2,6% árið 2025.