Laun hækk­að lang­mest í veit­inga- og gisti­geir­an­um

Laun hafa hækkað langmest í veitinga- og gistigeiranum á síðustu árum og mest meðal verka- og þjónustufólks. Frá því rétt áður en lífskjarasamningarnir voru samþykktir árið 2019 hafa laun þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks hækkað um að meðaltali 48,5% og verkafólks um 48,2%. Laun stjórnenda hafa á sama tímabili hækkað um 27,4% og laun sérfræðinga um 33,4%. Kaupmáttur hefur aukist um að meðaltali 10% á tímabilinu, en þróunin er ólík eftir hópum.
Veitingastaður
14. nóvember 2023

Spenna á vinnumarkaði hefur ýtt undir launaþrýsting síðustu mánuði. Atvinnuleysi minnkaði hratt eftir að faraldrinum linnti og mælist enn lítið, 3,2% í október. Launavísitalan hefur hækkað um 10,9% á síðustu tólf mánuðum. Hún hækkaði mest í desember eftir að kjarasamningar á stórum hluta vinnumarkaðarins voru samþykktir, svo aftur þó nokkuð í apríl og júní þegar gengið var frá fleiri kjarasamningum.

Kaupmáttur launa hefur aukist um 2,7% á síðustu tólf mánuðum. Á fyrstu mánuðum ársins rýrnaði kaupmáttur milli ára. Hann tók að sækja aftur í sig veðrið með hjaðnandi verðbólgu á seinni hluta ársins og hefur nú aukist síðustu fimm mánuði.

Launaþróun ólík eftir hópum

Laun hafa hækkað mismikið eftir starfstéttum og atvinnugreinum síðustu misseri. Til þess að bera saman launaþróun ólíkra hópa á vinnumarkaði er ágætt að horfa á þróunina frá því rétt áður en lífskjarasamningarnir voru samþykktir snemma árs 2019 og þar til nýjustu kjarasamningar höfðu verið undirritaðir á langstærstum hluta vinnumarkaðar, í júlí síðastliðnum. Nýjustu gögn Hagstofunnar um launaþróun ólíkra hópa ná einmitt fram í júlímánuð.

Á því tímabili (mars 2019 – júlí 2023) hafa laun hækkað mest í greinum tengdum veitinga- og gistirekstri, um 54,9%. Laun hafa hækkað næstmest í verslunum og viðgerðaþjónustu, um 40,2%, og minnst í fjármála- og vátryggingastarfsemi, um 30,0%.

Í takt við þetta hafa laun hækkað hlutfallslega mest meðal þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólks, um 48,5%, og meðal verkafólks, um 48,2%. Stjórnendur hafa hækkað hlutfallslega minnst í launum á tímabilinu, um 27,4%, og sérfræðingar næstminnst, um 33,4%.

Að meðaltali hefur kaupmáttur launa aukist um 10,1% á tímabilinu frá mars 2019 til september 2023. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 28% á tímabilinu og kaupmáttur aukist hjá nær öllum hópum, þó mjög lítið meðal sérfræðinga og rýrnað lítillega meðal stjórnenda.

Þessi munur á launuþróun ólíkra starfstétta og atvinnugreina er ekki tilviljun. Á tímabilinu sem hér er til skoðunar hefur markmið kjarasamninga, sérstaklega lífskjarasamninganna, verið að hækka hlutfallslega mest laun þeirra sem hafa lægstu launin, svo sem með krónutöluhækkunum og þaki á launahækkanir. Á sama tíma hefur verið kröftug eftirspurn eftir starfsfólki í greinum tengdum ferðaþjónustunni, svo sem gisti- og veitingarekstri, sem ýtir sérstaklega undir launahækkanir í þeim geira, og minnst eftirspurn eftir starfsfólki í fjármála- og tryggingastarfsemi. Um þessar mundir virðist eftirspurn eftir starfsfólki þó mest í byggingariðnaði.

Hlutfallsleg launaþróun ólíkra hópa hefur þó verið þó nokkuð jafnari eftir síðustu kjaraviðræður en á tímabilinu frá 2019 og fram að síðustu áramótum. Í lok janúar losna kjarasamningar á stærstum hluta vinnumarkaðarins eftir stutt samningstímabil. Í nýlegri þjóðhagsspá spáðum við því að laun myndu hækka um 9,4% á þessu ári og um 7,9% á næsta ári. Við spáðum svo hófstilltari hækkunum árin á eftir, 7,0% árið 2025 og 6,1% árið 2026. Samkvæmt spánni eykst kaupmáttur um 0,6% á þessu ári, um 2,4% á næsta ári og um 2,6% árið 2025.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Íbúðahús
27. nóv. 2023
Vikubyrjun 27. nóvember 2023
Fyrstu kaupendum á íbúðamarkaði fjölgaði verulega á þriðja fjórðungi ársins og voru 1.123 talsins, 33% allra kaupenda. Til samanburðar voru fyrstu kaupendur 789 talsins á öðrum fjórðungi, 26% allra kaupenda.
Gata í Reykjavík
24. nóv. 2023
Vísitala íbúðaverðs hækkar enn og kaupsamningum fjölgar
Vísitala íbúðaverðs hækkaði um 0,9% milli mánaða í október. Undirritaðir kaupsamningar á höfuðborgarsvæðinu voru 19% fleiri en í október í fyrra og fjölgaði einnig í september eftir að hafa fækkað viðstöðulaust milli ára frá miðju ári 2021. Vísitalan er hærri en við gerðum ráð fyrir við gerð verðbólguspár fyrir nóvembermánuð og því færum við hana örlítið upp og spáum nú 8,1% ársverðbólgu í stað 8,0%.
Seðlabanki
20. nóv. 2023
Vikubyrjun 20. nóvember 2023
Í nýjustu könnun á væntingum markaðsaðila, sem fór fram fyrir um tveimur vikum, töldu fleiri svarendur að taumhald peningastefnu væri of þétt en of laust. Þetta er viðsnúningur frá því sem verið hefur, en allt frá janúar árið 2020 hafa fleiri talið taumhaldið of laust.
Seðlabanki Íslands
17. nóv. 2023
Spáum óbreyttum stýrivöxtum í næstu viku
Við spáum því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands haldi meginvöxtum bankans óbreyttum í 9,25% í næstu viku. Við teljum að óvissa og viðkvæm staða í tengslum við jarðhræringar á Reykjanesskaga spili stóran þátt í ákvörðuninni og vegi þyngra en vísbendingar um þrálátan verðbólguþrýsting og viðvarandi háar verðbólguvæntingar.
Íbúðahús
16. nóv. 2023
Spáum 8,0% verðbólgu í nóvember
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,37% milli mánaða í nóvember og að ársverðbólga aukist úr 7,9% í 8,0%. Þeir liðir sem vega þyngst til hækkunar á vísitölunni eru reiknuð húsaleiga og verð á mat og drykkjarvöru, en flugfargjöld til útlanda vega þyngst til lækkunar. Við gerum ráð fyrir að verðbólga aukist svo lítillega í desember, í 8,1%, en hjaðni eftir áramót og verði 7,3% í janúar og 6,7% í febrúar.
13. nóv. 2023
Vikubyrjun 13. nóvember 2023
Netverslun Íslendinga er að jafnaði langmest í nóvember. Það skýrist af stórum netútsöludögum í mánuðinum eins og makalausa deginum (e. Singles’ Day), svörtum föstudegi (e. Black Friday) og stafrænum mánudegi (e. Cyber Monday).
Fólk við Geysi
10. nóv. 2023
Aldrei fleiri ferðamenn í október
Um 205 þúsund erlendir ferðamenn fóru frá Keflavíkurflugvelli í október og hafa aldrei verið fleiri í mánuðinum. Alls hafa um 1.940 þúsund erlendir ferðamenn farið um Leifsstöð það sem af er ári, örlítið fleiri en árið 2017 og lítillega færri en metárið 2018.
Kranar á byggingarsvæði
6. nóv. 2023
Vikubyrjun 6. nóvember 2023
Velta í byggingariðnaði dróst saman á milli ára í júlí og ágúst, samkvæmt gögnum Hagstofunnar sem byggja á virðisaukaskattsskýrslum. Þetta er í fyrsta skipti í rúm tvö ár sem veltan minnkar og til samanburðar jókst hún um rúm 15% milli ára á VSK-tímabilinu maí-júní.
2. nóv. 2023
Mánaðaryfirlit yfir sértryggð skuldabréf - október 2023
Meðfylgjandi er mánaðarlegt yfirlit um sértryggð skuldabréf.
Byggingakrani og fjölbýlishús
2. nóv. 2023
Íbúðaverð aftur á uppleið og ónóg uppbygging í kortunum
Húsnæðisliðurinn leiðir aftur hækkanir á vísitölu neysluverðs og íbúðaverð hækkaði umfram væntingar síðustu tvo mánuði. Útlit er fyrir að íbúðauppbygging á næstu misserum fullnægi ekki íbúðaþörf og því má gera ráð fyrir þó nokkrum verðþrýstingi þegar vaxtastigið fer lækkandi.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur