Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Krón­an styrkt­ist á síð­asta ári

Krónan styrktist á móti evru en veiktist aðeins á móti Bandaríkjadal á árinu 2024. Árið var nokkuð rólegt á millibankamarkaði með gjaldeyri þar sem velta dróst saman og minna var um flökt.
Pund, Dalur og Evra
17. janúar 2025

Það er óhætt að segja að gengi krónunnar hafi verið frekar stöðugt í fyrra. Í upphafi árs kostaði evra 150,5 kr. Gengið breyttist lítið á fyrstu sjö mánuðum ársins og evran sveiflaðist í kringum 150 kr.  Í ágúst veiktist krónan svo og evran fór hæst í 153,3 kr. Veikingin gekk til baka, og gott betur, og í lok árs stóð evran í 143,9 kr.

Krónan styrktist umfram væntingar í lok árs

Undir lok árs styrktist krónan meira en við höfðum búist við. Í hagspá sem við gáfum út í apríl gerðum við ráð fyrir að evran myndi kosta 148 kr. í lok árs og í október gerðum við ráð fyrir að evran myndi enda árið í 149 kr. Raunin varð sem fyrr segir tæplega 144 kr. Bandaríkjadalur styrktist á móti evru með þeim afleiðingum að krónan styrktist ekki á móti Bandaríkjadal. Hér á landi er virk verðmyndun á evru en gengi annarra gjaldmiðla er reiknað út frá verði á evru og verði þess gjaldmiðils í evrum.

Alls lækkaði gengisvísitalan, þ.e. krónan styrktist, um 3,8% í fyrra. Munar þar mestu um að verð á evru lækkaði um 4,4%, en evran og danska krónan (sem er beintengd evrunni) er helmingur gengisvísitölunnar. Bandaríkjadalur styrktist og verð á honum hækkaði um 1,5%. Af öðrum gjaldmiðlum má nefna að verð á norsku krónunni lækkaði og það sama má segja um sænsku krónuna, Kanadadollar og svissneska frankann en verð á sterlingspundi stóð nokkurn veginn í stað.

Velta á millibankamarkaði með gjaldeyri dróst saman á milli ára

Á millibankamarkaði með gjaldeyri eru stóru viðskiptabankarnir þrír (Arion banki, Íslandsbanki og Landsbankinn) og Seðlabanki Íslands. Á markaðnum fara fram viðskipti með evrur gegn greiðslu í íslenskum krónum. Alls var veltan á millibankamarkaði með gjaldeyri 216 ma.kr. (1.454 m.evra) í fyrra. Veltan dróst saman um 10% á milli ára og hefur ekki verið lægri síðan 2019. Þess ber þó að geta að velta á millibankamarkaði segir ekki alla söguna varðandi umfang viðskipta með gjaldeyri hér á landi. Almennt reyna viðskiptabankarnir að para saman kaup og sölu á gjaldeyri hjá viðskiptavinum sínum og fara aðeins út á markað ef misræmi myndast í viðskiptunum. Þannig fer stór hluti gjaldeyrisviðskipta aðeins fram innanhúss og ratar ekki út á millibankamarkað.

Seðlabanki grípur inn á gjaldeyrismarkaði þegar hann sér ástæðu til. Seðlabankinn var mjög virkur á síðari hluta uppgangsára ferðaþjónustunnar, árin 2012-2017. Þá keypti hann gjaldeyri í stórum stíl sem gerði honum kleift að byggja upp óskuldsettan gjaldeyrisvarasjóð. Á meðan heimsfaraldurinn reið yfir seldi Seðlabankinn hluta af þessum gjaldeyri til að milda áhrif lokunar landsins. Síðustu tvö ár hefur veltan nær eingöngu skýrst af viðskiptum á milli viðskiptabankanna. Seðlabankinn greip aðeins eitt sinn inn á markaðinn í fyrra, en í febrúar keypti hann erlendan gjaldeyri fyrir 9,2 ma.kr. til að mæta innflæði vegna kaupa erlends aðila á ríkisskuldabréfum í útboði.

Krónan sveiflaðist með minnsta móti í fyrra

Eins og kom fram hér að ofan var krónan tiltölulega stöðug í fyrra. Meðalflökt var 3,9% og hefur ekki verið minna síðan árið 2016.

Almennt sveiflast krónan minna á móti evru en öðrum gjaldmiðlum. Skýrist það bæði af að evran er stærsta myntin í utanríkisviðskiptum og einnig sá gjaldmiðill sem verslað er með á millibankamarkaði. Það var einnig raunin í fyrra, þ.e. flökt á verði evru (og dönsku krónunnar) var nokkuð minna en flökt í myntum annarra helstu viðskiptalanda okkar.

Loðna og ferðamenn gætu styrkt krónuna frekar í ár

Það verður forvitnilegt að fylgjast með þróun á gjaldeyrismarkaði í ár. Krónan endaði árið sterkari en spár gerðu ráð fyrir. Vísbendingar eru um að það hafi ræst úr stöðu utanríkisviðskipta og nýjustu gögn Ferðamálastofu sýna að fleiri ferðamenn komu til landsins í fyrra en spár gerðu ráð fyrir, eða 2,26 milljónir. Við spáðum því að fjöldinn yrði 2,2 milljónir. Loðnubrestur setti þó svip sinn á fyrri hluta ársins og ekki hefur verið gefinn út loðnukvóti fyrir árið í ár. Eflaust skýrist á næstu dögum hvort af loðnuveiðum verður, með tilheyrandi áhrifum á utanríkisviðskipti og gengi krónunnar. Þar að auki gæti innflæði í fjárfestingar hér á landi á árinu haft áhrif til styrkingar krónunnar.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Greiningardeildar Landsbankans hf. (greiningardeild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Greiningardeildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Greiningardeild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Bananar
28. júlí 2025
Vikubyrjun 28. júlí 2025
Verðbólga hjaðnaði úr 4,2% í 4,0% í júlí. Við teljum ekki horfur á að verðbólga fari aftur niður fyrir efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands í ár, heldur haldist á bilinu 4,0% til 4,3% út árið.
25. júlí 2025
Minni verðbólga með bættri aðferð
Nú er liðið rúmt ár síðan Hagstofan tók upp nýja aðferð við að mæla reiknaða húsaleigu, sem er sá hluti vísitölu neysluverðs sem metur kostnað fólks við að búa í eigin húsnæði.
24. júlí 2025
Verðbólga aftur við efri vikmörk
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,32% á milli mánaða og verðbólgan hjaðnaði úr 4,2% í 4,0%. Þetta var í samræmi við væntingar, en við spáðum 0,26% aukningu VNV á milli mánaða og 4,0% verðbólgu. Við teljum að verðbólga komist ekki undir 4,0% efri vikmörk verðbólgumarkmiðs Seðlabankans í ár.
Fjölbýlishús
21. júlí 2025
Vikubyrjun 21. júlí 2025
Í júní dró úr árshækkun bæði vísitölu íbúðaverðs og leiguverðs. Ró virðist hafa færst yfir húsnæðismarkaðinn og HMS fjallaði um það í síðustu viku að markaðurinn væri frekar á valdi kaupenda en seljenda. Á fimmtudag birtir Hagstofan verðbólgutölur en við spáum því að verðbólga hjaðni úr 4,2% í 4,0%.
Háþrýstiþvottur
14. júlí 2025
Vikubyrjun 14. júlí 2025
Erlendum ferðamönnum fjölgaði um 10,1% á milli ára í júní, en það sem af er ári hafa þeir verið álíka margir og á sama tíma í fyrra. Atvinnuleysi jókst um 0,3 prósentustig á milli ára í júní, sem er svipuð aukning og hefur verið síðustu mánuði. Við birtum verðbólguspá í vikunni og teljum að verðbólga hjaðni úr 4,2% í 4,0%. Í þessari viku birtir HMS vísitölu íbúðaverðs, vísitölu leiguverðs og mánaðarskýrslu.
10. júlí 2025
Spáum 4% verðbólgu í júlí
Við spáum því að verðbólga minnki lítillega í júlí og mælist 4,0%. Eins og almennt í júlímánuði má búast við að sumarútsölur og breytingar á flugfargjöldum hafi mest áhrif á vísitölu neysluverðs. Við teljum ekki horfur á að verðbólga þokist nær verðbólgumarkmiði á árinu og spáum 4,2% verðbólgu í lok árs.
Fjölbýlishús
9. júlí 2025
Raunverð íbúða hefur þrefaldast frá aldamótum 
Íbúðaverð á Íslandi hefur hækkað langtum meira en laun og almennt verðlag frá aldamótum. Greiðslubyrði af meðalláni hélst tiltölulega stöðug til ársins 2021 þegar hún tók að hækka skarpt, sérstaklega greiðslubyrði af óverðtryggðum lánum.   
Hús í Reykjavík
7. júlí 2025
Matur og húsnæði helstu drifkraftar verðbólgu
Hækkandi matvöruverð og húsnæðiskostnaður eru þeir þættir sem eiga stærstan þátt í því að viðhalda verðbólgu á Íslandi um þessar mundir. Verðbólga mældist 4,2% í júní, nokkuð umfram spár. Ef matvara og húsnæði væru ekki hluti af vísitölu neysluverðs hefði verðbólga verið undir markmiði Seðlabankans frá því í ágúst í fyrra. Þættir á borð við sterkari krónu og lækkandi olíuverð hafa líkast til haldið aftur af verðhækkunum á ýmsum vörum upp á síðkastið, en á móti hefur þjónustuverð hækkað.
Bakarí
7. júlí 2025
Vikubyrjun 7. júlí 2025
Hagstofa Íslands spáir 2,2% hagvexti á yfirstandandi ári, samkvæmt hagspá sem birt var á föstudaginn. Hagvaxtarhorfur hafa verið færðar upp frá marsspánni þegar gert var ráð fyrir 1,8% hagvexti á árinu. Hagstofan spáir lítillega auknu atvinnuleysi næstu misserin, en Vinnumálastofnun birtir atvinnuleysistölur fyrir júnímánuð síðar í þessari viku.
1. júlí 2025
Mánaðamót 1. júlí 2025
Mánaðarlegt fréttabréf frá Greiningardeild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.