Kröft­ug­ur hag­vöxt­ur á síð­asta ári, í sam­ræmi við vænt­ing­ar

Hagvöxtur mældist 6,4% árið 2022, samkvæmt fyrsta mati Hagstofunnar. Hagvöxturinn var drifinn áfram af kröftugum vexti einkaneyslu og fjármunamyndunar. Útflutningur og innflutningur jukust verulega á milli ára, en heildaráhrif utanríkisverslunar á hagvöxt voru engin að þessu sinni. Tölurnar eru í takt við opinberar spár, en í nýjustu spá okkar frá því í október í fyrra gerðum við ráð fyrir 6,5% hagvexti.
Frosnir ávextir og grænmeti
28. febrúar 2023

Samkvæmt fyrsta mati Hagstofu Íslands mældist 6,4% hagvöxtur á síðasta ári. Hagvöxturinn var drifinn af kröftugum vexti einkaneyslu, sem jókst um 8,6% milli ára og fjármunamyndun, sem jókst um 6,9% milli ára. Samneyslan, sem jókst um 1,6% milli ára, hafði mun minni áhrif. Alls jókst innlend eftirspurn um 8,6% milli ára. Bæði útflutningur (+20,6% milli ára) og innflutningur (+19,7% milli ára) jukust verulega milli ára. Utanríkisverslun hafði engin heildaráhrif á hagvöxt, sem skýrir hvers vegna aukning innlendrar eftirspurnar var jöfn hagvextinum. Hagvöxtur á mann mældist 3,7%, nokkuð minni en heildarhagvöxtur, enda fjölgaði íbúum á síðasta ári.

Samfelldur hagvöxtur sjö ársfjórðunga í röð

Heldur dró úr hagvexti þegar leið á árið 2022. Hagvöxtur mældist 3,1% á 4. ársfjórðungi en hafði verið 8,2% á fyrsta ársfjórðungi, 7,2% á öðrum og 7,5% á þeim þriðja. Nú hefur mælst hagvöxtur sjö ársfjórðunga í röð, en síðast mældist samdráttur milli ára á 1. ársfjórðungi 2021. Samsetning hagvaxtarins var nokkuð keimlík alla sjö ársfjórðungana, kröftugur vöxtur einkaneyslu, útflutnings og fjármunamyndunar á meðan aukinn innflutningur dró verulega úr hagvextinum.

Einkaneysla jókst áttunda ársfjórðunginn í röð

Einkaneysla var kröftug á síðasta ári. Hún jókst um 8,6% milli áranna 2021 og 2022, eftir að hafa aukist um 7% árið áður. Hún hefur nú aukist samfellt átta ársfjórðunga í röð, sé horft til breytinga á milli ára. Á fyrsta ársfjórðungi ársins 2022 jókst einkaneysla um 9,2% frá fyrsta ársfjórðungi árið áður, á öðrum ársfjórðungi um 13,7%, um 7,4% á þeim þriðja og um 4,7% á fjórða ársfjórðungi. Einkaneyslan jókst einna mest í undirliðum tengdum samgöngum og bílakaupum og einkaneysla í tengslum við ferðalög til útlanda eykst líka mjög.

Kröftug einkaneysla þarf ekki að koma á óvart enda aðeins örfáir mánuðir síðan tólf ára tímabili samfelldrar kaupmáttaraukningar lauk. Á meðan á faraldrinum stóð jókst kaupmáttur á meðan einkaneysla dróst þó nokkuð saman, og því safnaðist upp sparnaður sem ætla má að einhverjir hópar geti enn gengið á. Eftirspurn fór hratt af stað eftir að takmarkanir vegna faraldursins voru afnumdar, og kortavelta Íslendinga tók að aukast bæði hér heima og erlendis.

Á síðasta ári tók þó að hægja á kaupmáttaraukningunni og á seinni helmingi ársins var verðbólgan farin að éta upp kaupmáttinn. Takist ekki að ná böndum á verðbólgu á næstu mánuðum er ólíklegt að kaupmáttur aukist, sem ætla má að hafi smám saman áhrif á einkaneysluna. Einkaneyslan hefur sveiflast með svipuðum hætti og greiðslukortavelta síðustu ár og gögn um kortaveltu, sem birt eru í hverjum mánuði, gefa að jafnaði ágætisvísbendingu um þróun einkaneyslunnar.

Mikið fjárfest annað árið í röð

Fjármunamyndun jókst um 6,9% milli ára og er þetta annað árið í röð sem fjármunamyndun eykst verulega milli ára. Aukningin í fjármunamyndun skýrist aðallega af aukinni atvinnuvegafjárfestingu sem jókst um 15,2% milli ára. Þessi aukna atvinnuvegafjárfesting er nokkur viðsnúningur, atvinnuvegafjárfesting dróst saman á milli ára á árunum 2018-2020. Annað árið í röð dróst fjárfesting í íbúðafjárfestingu saman milli ára og fjárfesting hins opinbera hélst nokkuð stöðug milli ára.

Ferðaþjónustan skýrir aukinn útflutning

Útflutningur jókst um 10,7% milli ára á fjórða fjórðungi sem er talsvert minni vöxtur en á fyrstu þremur ársfjórðungum 2022. Útflutningur var  24,2% meiri á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2022 en á fyrstu þremur fjórðungum ársins 2021. Vöxtur útflutnings kemur að mestu til vegna aukins þjónustuútflutnings sem jókst um 24,6% á fjórða ársfjórðungi 2022 þegar ferðaþjónusta var komin aftur á flug eftir faraldurinn. Vöxtur í vöruútflutningi jókst minna eða um 2,1%. Ef horft er til ársins í heild jókst heildarútflutningur um 20,6%, þar sem þjónustuútflutningur jókst um 53,8% og  vöruútflutningur um 1,4%. Vöxtur í þjónustuútflutningi skýrist sem fyrr segir aðallega af ferðaþjónustunni sem komst á gott skrið eftir því sem leið á árið. Fjöldi ferðamanna á fjórða ársfjórðungi var um 98% af fjöldanum 2019, síðasta árið fyrir faraldurinn. Alls komu 1,7 milljón erlendra ferðamanna til landsins á öllu árinu sem er um 85% af fjöldanum 2019.

Samhliða birtingu þjóðhagsreikninga birti Hagstofan ferðaþjónustureikninga. Heildarhlutur ferðaþjónustu í vergri landsframleiðslu var 230 ma. kr. í fyrra sem samsvara 6,1% af landsframleiðslunni. Hlutfallið er minna en á árunum 2016-2019 þegar það var stöðugt í 8%.

Athygli vakti í frétt Hagstofunnar sem fylgdi með útgáfu þjóðhagsreikninga að viðskipti vegna notkunar á hugverkum milli landa væru til skoðunar. Upphæðir í tengslum við viðskipti vegna notkunar á hugverkum hafa verið töluverðar á síðustu árum. Hagstofan hefur til skoðunar hvort stór hluti þessara viðskipta falli undir skilgreiningu þjóðhagsreikningastaðla um útflutta þjónustu. Hagstofan gaf það út fyrir helgi, í frétt með vöru- og þjónustuviðskiptum fyrir fjórða ársfjórðung, að á meðan málið væri til skoðunar yrðu þær tölur ekki með fyrir 2022. Í fréttinni með nýjum þjóðhagsreikningatölum segir hins vegar að þessar færslur hafi verið fjarlægðar aftur til ársins 2018. Í fréttinni segir einnig að áhrifin fyrir tímabilið í heild nemi um 90 ma.kr. til lækkunar á viðskiptajöfnuði.

Innflutningur jókst að sama skapi

Innflutningur jókst um 10,5% milli ára á fjórða fjórðungi, minna en á fyrstu þremur ársfjórðungunum. Heildarverðmæti innflutnings var hins vegar meira á fjórða fjórðungi samanborið við fyrstu þrjá, en minni vöxtur skýrist af grunnáhrifum. Vöruinnflutningur jókst um 9,7% og þjónustuinnflutningur um 12,8%. Sé litið til ársins í heild jókst innflutningur um 19,7%, þar sem þjónustuinnflutningur jókst um 39,8% og vöruinnflutningur um 11,5%. Stærstur hluti vaxtar í þjónustuinnflutningi er til kominn vegna ferðagleði landsmanna til útlanda.

Hagvöxtur í takti við spár

Fyrstu spár um hagvöxt ársins 2022 voru birtar árið 2019. Þá var gert ráð fyrir að hagvöxtur yrði í kringum 2,5% árið 2022, sem er nokkuð nálægt jafnvægishagvexti. Síðan þá hefur mikið vatn runnið til sjávar, heimsfaraldur skollið á með tilheyrandi skelli á eftirspurnarhliðinni og eftirspurn svo aukist hratt á ný eftir að samkomu- og ferðatakmarkanir voru afnumdar. Smám saman hækkuðu flestallir greiningaraðilar spár um hagvöxt en mikil óvissa um þróun faraldursins gerði það að verkum að þó nokkuð bar í milli. Hagvaxtartalan upp á 6,4% sem Hagstofan birti í morgun var í samræmi við flestar nýjustu spár, spár frá því í haust lágu á bilinu 5,6%-7,3%. Nýjasta spá okkar gerði ráð fyrir 6,5% hagvexti árið 2022.

Eins og kom fram að ofan er þetta fyrsta mat á landsframleiðslunni í fyrra. Hagstofan mun uppfæra tölurnar samhliða birtingu þjóðhagsreikninga fyrir 2. ársfjórðung í lok ágúst. Við teljum mesta óvissu ríkja um það hvernig viðskipti með hugverk verða tekin inn í tölurnar. Ákveði Hagstofan að taka hugverk með í reikninginn má búast við að hagvöxtur á árunum 2019-2022 verði meiri en nú virðist.

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
Lyftari í vöruhúsi
29. nóv. 2024
0,5% samdráttur á þriðja ársfjórðungi
Hagkerfið dróst saman á milli ára á þriðja ársfjórðungi, samkvæmt nýbirtum þjóðhagsreikningum Hagstofunnar. Verri afkoma þjónustuviðskipta við útlönd skýrir að stórum hluta samdráttinn á fjórðungnum. Innlend eftirspurn jókst um 0,8% milli ára og samneysla og aukin fjármunamyndun vógu þyngst til hækkunar.
29. nóv. 2024
Merki um minna framboð leiguhúsnæðis 
Skammtímaleiga í gegnum Airbnb hefur stóraukist eftir faraldurinn og framboð á íbúðum til langtímaleigu virðist hafa minnkað á móti. Þessi þróun gæti hafa átt þátt í að þrýsta upp leiguverðinu. Stærstur hluti Airbnb-íbúðanna er leigður út af leigusölum með fleiri en tvær íbúðir í útleigu.
28. nóv. 2024
Verðbólga yfir væntingum í nóvember
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,09% á milli mánaða í nóvember, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Íslands. Ársverðbólga lækkar því úr 5,1% í 4,8%, eða um 0,3 prósentustig. Reiknuð húsaleiga hafði mest áhrif til hækkunar vísitölunnar og flugfargjöld til útlanda mest áhrif til lækkunar.
Hús í Reykjavík
26. nóv. 2024
Rólegri taktur á íbúðamarkaði?
Nýjustu gögn af íbúðamarkaði benda til þess að lítillega hafi dregið úr eftirspurn. Grindavíkuráhrifin eru líklega tekin að fjara út og hugsanlega heldur fólk að sér höndum nú þegar vaxtalækkunarferlið er nýhafið og loks glittir í ódýrari fjármögnun. Verðið gæti tekið hratt við sér þegar vextir lækka af meiri alvöru.
Seðlabanki Íslands
25. nóv. 2024
Vikubyrjun 25. nóvember 2024
Seðlabankinn lækkaði stýrivexti um 0,5 prósentustig í síðustu viku, í takt við væntingar. Í þessari viku birtir Hagstofan verðbólgumælingu nóvembermánaðar en við eigum von á að verðbólga hjaðni úr 5,1% í 4,5%. Á föstudag, þegar Hagstofan birtir þjóðhagsreikninga, kemur svo í ljós hvernig hagvöxtur þróaðist á þriðja ársfjórðungi.
Paprika
19. nóv. 2024
Mun verðbólga húrrast niður næstu mánuði? 
Við spáum því að verðbólga lækki nokkuð hratt allra næstu mánuði og í nýlegri verðbólguspá gerum við ráð fyrir að verðbólga verði komin niður í 3,5% í febrúar, sem er talsverð hjöðnun frá núverandi gildum. Það er því ágætt að staldra við og skoða hvaða þættir munu skýra lækkunina, gangi spá okkar eftir. 
Greiðsla
18. nóv. 2024
Vikubyrjun 18. nóvember 2024
Við gerum ráð fyrir því að peningastefnunefnd lækki vexti um 0,50 prósentustig á miðvikudaginn. Verðmælingar vegna nóvembermælingar vísitölu neysluverðs fóru fram í síðustu viku, en við spáum því að verðbólga hjaðni úr 5,1% niður í 4,5%. Tæplega 5% fleiri erlendir ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í október í ár en í fyrra og kortavelta þeirra hér á landi jókst um 5,4% miðað við fast verðlag. Kortavelta Íslendinga jókst um 6,8% að raunvirði á milli ára í október.
14. nóv. 2024
Spáum vaxtalækkun um 0,5 prósentustig í næstu viku
Verðbólga hefur hjaðnað nokkuð kröftuglega á síðustu mánuðum og við spáum því að hún mælist 4,5% í nóvember. Loks má greina merki um hægari gang í neyslu heimilanna og íbúðaverð virðist vera á minna flugi en áður. Þá virðist eftirspurn eftir vinnuafli hafa minnkað auk þess sem hægt hefur á launahækkunum. Peningalegt aðhald hefur aukist statt og stöðugt og landsframleiðsla gæti orðið lítillega minni á þessu ári en því síðasta.
Epli
14. nóv. 2024
Spáum 4,5% verðbólgu í nóvember
Við spáum því að vísitala neysluverðs lækki um 0,13% á milli mánaða í nóvember og að verðbólga hjaðni úr 5,1% í 4,5%. Flugfargjöld til útlanda og reiknuð húsaleiga koma til lækkunar að þessu sinni, en húsnæði án reiknaðrar húsaleigu til hækkunar. Við eigum von á áframhaldandi hjöðnun næstu mánuði og að ársverðbólga verði komin niður í 3,5% í febrúar á næsta ári.
Selfoss
11. nóv. 2024
Vikubyrjun 11. nóvember 2024
Skráð atvinnuleysi hækkaði lítillega á milli ára í október og halli á vöruskiptajöfnuði jókst aðeins. Hagstofan birti þjóðhagsspá og bæði Seðlabanki Bandaríkjanna og Englandsbanki lækkuðu vexti. Í vikunni fáum við gögn um fjölda ferðamanna um Keflavíkurflugvöll, niðurstöður úr væntingakönnun markaðsaðila og tölur um veltu greiðslukorta. Uppgjörstímabilið í Kauphöllinni heldur áfram.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur