Kortavelta heimilanna færist út fyrir landsteinana
Seðlabanki Íslands birti nýverið gögn um veltu innlendra greiðslukorta í júní. Þar kom fram að heildarvelta innlendra greiðslukorta heimila nam 104,9 mö. kr. í júní 2022 og jókst um rúm 10% á milli ára að raunvirði.
Velta innlendra greiðslukorta innanlands nam 82,2 mö. kr. sem er 2,4 ma.kr. lækkun milli ára, núvirt með vísitölu neysluverðs án húsnæðis. Það gerir um 2,8% raunlækkun á milli ára. Aftur á móti nam velta greiðslukorta erlendis um 22,7 mö. kr. og hækkaði veltan, núvirt með gengisvísitölu, um 12,1 ma. kr. eða nærri 114% frá júní í fyrra. Um er að ræða enn einn metmánuðinn í neyslu Íslendinga erlendis en Íslendingar settu kortaveltumet erlendis bæði í apríl og maí.