Kaupmáttur hefur rýrnað um 4,2% á árinu

Launavísitalan hækkaði um 0,2% milli mánaða í ágúst og þriðja mánuðinn í röð hægist á árshækkuninni. Á síðustu 12 mánuðum hefur launavísitalan hækkað um 8%.
Kaupmáttur launa heldur áfram að rýrna, enda mældist ársverðbólga 9,7% í ágúst. Eins og fram hefur komið lauk tæplega 12 ára samfelldri kaupmáttaraukningu í júní á þessu ári, horft til breytinga milli ára.
Frá því að kaupmáttur náði hámarki í janúar hefur hann nú rýrnað um 4,2%. Þótt kaupmáttur dragist aðeins saman um 0,1% milli mánaða hefur hann minnkað um 1,6% á síðustu 12 mánuðum og hefur ekki verið minni síðan í desember 2020.
Á síðustu 12 mánuðum hafa laun hækkað langmest hjá þeim sem starfa við rekstur gisti- og veitingastaða, um 13%, og næstmest í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð, og veitustarfsemi, um 8%. Laun hafa hækkað minnst í fjármála- og vátryggingastarfsemi, um 5,6%.
Launaþróun í greinunum er í samræmi við mat fyrirtækja á vinnuaflsþörf. Fyrirtæki í byggingar- og veitustarfsemi og ferðaþjónustu vilja frekar fjölga starfsmönnum en fækka þeim, en fyrirtæki í fjármála- og tryggingastarfsemi eru líklegri til að vilja fækka starfsfólki.
Ef horft er á launaþróun ólíkra starfstétta má sjá að verkafólk og þjónustu-, sölu- og afgreiðslufólk hefur hækkað mest í launum milli annars ársfjórðungs á síðasta ári og annars ársfjórðungs á þessu ári.
Verð á vörum og þjónustu hækkar hratt um þessar mundir og við það dregst kaupmáttur saman. Eftir því sem kaupmáttur rýrnar duga launin skemur og landsmenn gætu þurft að draga úr einkaneyslu, sparnaði, eða hvoru tveggja. Eins og fram hefur komið er verðbólgan þó tekin að hjaðna en í síðustu viku kom fram að vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefði lækkað í ágúst. Það var fyrsta lækkun á íbúðaverði síðan í nóvember 2019. Erfitt er að segja til um þróun kaupmáttar næstu mánuði, bæði vegna óvissu um verðbólgu en þó ekki síst vegna óvissu um launaþróun nú þegar kjaraviðræður eru framundan.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsmanna Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara. Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti. Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.








