Kaupmáttur á niðurleið – miklar launahækkanir tengdar ferðaþjónustu
Launavísitalan var nær óbreytt milli maí og júní samkvæmt tölum Hagstofu Íslands. Síðustu 12 mánuði hefur launavísitalan hækkað um 8,1%.
Verðbólga í júní 2022 mældist 8,8%. Árshækkun launavísitölunnar var hins vegar 8,1% þannig að kaupmáttur launa minnkaði um 0,9% milli júnímánaða 2021 og 2022. Kaupmáttur í júní var 2,9% lægri en hann var í janúar 2022, en þá var kaupmáttur sá mesti í sögunni, þannig að mikil verðbólga síðustu mánaða hefur minnkað kaupmátt töluvert. Kaupmáttur hefur ekki verið lægri síðan í desember 2020. Nokkuð víst má telja að kaupmáttur haldi áfram að minnka á næstu mánuðum þar sem verðbólga er áfram mikil og ekki um frekari samningsbundnar launahækkanir að ræða á þessu samningstímabili, sem lýkur í lok október á almenna markaðnum.
Sé litið á launabreytingar hjá stóru hópunum á vinnumarkaðnum milli aprílmánaða 2021 og 2022 sést að laun hafa hækkað eilítið meira á opinbera markaðnum en þeim almenna. Launin hækkuðu um 8,2% á almenna markaðnum á þessum tíma og um 9,3% á þeim opinbera, þar af 8,0% hjá ríkinu og 10,6% hjá sveitarfélögunum. Hækkanir hjá sveitarfélögunum hafa því verið töluvert meiri en á öðrum mörkuðum á þessu tímabili.
Launavísitalan fyrir allan vinnumarkaðinn hækkaði um 8,5% milli aprílmánaða 2021 og 2022. Laun innan flestra atvinnugreina hafa hækkað með svipuðum hætti, þó með tveimur undantekningum. Laun á veitinga- og gististöðum hafa hækkað um 12,7% á þessu tímabili og laun í fjármála- og vátryggingastarfsemi um 5,9%. Hækkunin í veitinga- og gistihúsastarfsemi er mun meiri en í öðrum greinum sem ættu að vera tiltölulega sambærilegar. Stór hluti af veitinga- og gistiþjónustu er háður stöðu ferðaþjónustunnar, verður því athyglisvert að fylgjast með þróun launa í þeirri grein eftir því sem líða tekur á sumarið og starfsemin óðum að komast í svipað horf og mest hefur verið.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Kaupmáttur á niðurleið – miklar launahækkanir tengdar ferðaþjónustu