Seðlabanki Íslands birti í gær gögn um veltu innlendra greiðslukorta í desember. Samanlagt jókst kortavelta um 14% milli ára miðað við fast gengi og fast verðlag. Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands tæplega 92 mö.kr. og jókst um 6% milli ára á föstu verðlagi. Kortavelta Íslendinga erlendis nam tæplega 18 mö.kr. og jókst um 90% milli ára miðað við fast gengi.
Kortavelta eftir útgjaldaliðum sýnir að aukningin milli ára er meiri í kaupum á þjónustu en vörum. Kaup Íslendinga á þjónustu ferðaskrifstofa nær þrefaldaðist milli ára í desember, sem er þó minnsti vöxtur milli ára síðan í ágúst og mögulega til marks um að hertar sóttvarnaraðgerðir um heim allan hafi dregið úr ferðaáhuga fólks. Sé miðað við desember 2019 mælast kaup á þjónustu ferðaskrifstofa 20% minni.
Sóttvarnaraðgerðir innanlands virðast ekki hafa dregið mikið úr ásókn Íslendinga á veitingastaði þar sem kortaveltan mældist 5% meiri en í desember 2019 miðað við fast verðlag. Kaup á þjónustu frá menningarstarfsemi mældist þó 15% minni en í desember fyrir faraldur og því misjafnt hvernig ný bylgja faraldursins rétt fyrir jól lagðist á ólíka útgjaldaliði. Mögulega eiga áhrifin eftir að verða skýrari í janúar þar sem smitum hefur fjölgað mikið frá jólum.