Seðlabanki Íslands birti í gær gögn um veltu innlendra greiðslukorta í desember.* Alls nam velta tengd verslun og þjónustu innanlands 84 mö.kr. og jókst um 5% milli ára miðað við fast verðlag. Kortavelta erlendis nam alls 9,7 mö.kr. og dróst saman um 45% milli ára miðað við fast gengi. Samanlagt dróst kortavelta saman um 4% miðað við fast gengi og fast verðlag, sem er örlítið minni samdráttur en mældist í nóvember, þegar neyslan dróst saman um 6%.
Neysla var nokkuð mikil í desember, meiri en árið áður þrátt fyrir verulega breyttar aðstæður og takmarkanir á þeirri þjónustu sem fólk gat sótt sér. Jólatónleikar og jólahlaðborð voru til að mynda ekki í boði með hefðbundnum hætti en þrátt fyrir það fann innlend neysla sér farveg og gott betur. Stóraukin netverslun, líkt og sást í nóvember, hefur að líkindum haldið uppi neyslunni og auðveldað mörgum jólainnkaupin. Hér spilar einnig inn í að lítið var um að Íslendingar eyddu jólafríinu erlendis eins og töluvert hefur verið um síðustu ár. Því er hluti neyslunnar hér á landi í desember á síðasta ári neysla sem hefði átt sér stað erlendis ef heimsfaraldurinn hefði ekki átt sér stað.
Á fjórða ársfjórðungi dróst kortavelta saman um alls 7% milli ára að raunvirði. Þetta er örlítið meiri samdráttur en mældist á þriðja ársfjórðungi, þegar hún dróst saman um 5%, en minni samdráttur en mældist á öðrum fjórðungi (-12%). Líkt og á öðrum og þriðja ársfjórðungi var samdrátturinn þó eingöngu vegna minni neyslu erlendis frá.
Það má með sanni segja að síðasta ár hafi verið mjög ólíkt fyrri árum og neysluvenjur fólks breyttust verulega. Það virðist hafa tekið tíma að læra á faraldurinn og hvernig bæri að haga neyslunni og jókst hún því ekki innanlands fyrr en undir lok fyrstu bylgju. Fyrsta bylgjan kenndi okkur þó ýmislegt er varðar heimsendingar og netverslun og gæti það verið ástæða þess að neysla dróst ekki saman með viðlíka hætti í haust og sást í fyrstu bylgjunni.