Íslendingar aldrei eytt meiru erlendis
Seðlabanki Íslands birti nýverið gögn um veltu innlendra greiðslukorta í maí. Þar kom fram að heildarvelta innlendra greiðslukorta nam 111,7 mö.kr. í maí 2022. Velta innlendra greiðslukorta í verslunum innanlands nam 88,8 mö.kr. sem er 3,3 ma.kr. hækkun milli ára, núvirt með vísitölu neysluverðs án húsnæðis, sem gerir um 4% hækkun á milli ára. Að sama skapi nam velta greiðslukorta erlendis um 22,9 mö.kr. og hækkaði veltan, núvirt með gengisvísitölu, um 12,5 mö.kr. - nærri 120% hækkun frá maí í fyrra. Þetta er mesta neysla Íslendinga erlendis frá upphafi gagnasöfnunar, raunvirt með gengisvísitölu, en um er að ræða tvo metmánuði í röð þar sem sl. aprílmánuður sló einnig met.
Brottfarir Íslendinga um Keflavíkurflugvöll slógu met í maí, samanborið við aðra maímánuði. Alls töldu brottfarir Íslendinga um 65 þúsund en fyrir það hafði maímánuðurinn 2018 verið sá umsvifamesti, þegar 63 þúsund Íslendingar flugu frá Keflavíkurflugvelli. Íslendingar eyða meiru erlendis nú en fyrir faraldur, bæði vegna þess að netverslun hefur færst í aukana en einnig vegna þess að fólk virðist gera betur við sig en áður.