Íbúðaverð hækkar hratt umhverfis höfuðborgarsvæðið

Íbúðamarkaður hefur verið líflegur um land allt síðustu misseri. Lágir vextir og breyttar neysluvenjur vegna faraldursins hafa aukið eftirspurn eftir húsnæði verulega, sala hefur aukist og verð hækkað. Hækkanir einskorðast ekki við höfuðborgarsvæðið, heldur má sjá talsverðar hækkanir í þéttbýliskjörnum um land allt.
Samkvæmt athugun úr Verðsjá Þjóðskrár Íslands hækkaði íbúðaverð á bilinu 9-36% milli ára á þriðja ársfjórðungi í þéttbýliskjörnum umhverfis höfuðborgarsvæðið. Mest var hækkunin í Árborg (36%), og næstmest á Akranesi (20%). Árborg sker sig nokkuð úr. Ef horft er til þróunar frá upphafi árs 2015 má sjá að íbúðaverð hefur hækkað mest í Árborg og því næst í Reykjanesbæ og á Akranesi.
Þrátt fyrir þessar hækkanir er fermetraverð íbúða enn talsvert lægra í kjörnum utan höfuðborgarsvæðisins, á bilinu 24-37% lægra. Minnstu munar í Árborg þar sem fermetraverð er að jafnaði 24% lægra en á höfuðborgarsvæðinu. Fyrir ári síðan var fermetraverðið hins vegar 34% lægra, áður en íbúðaverð í Árborg tók að hækka hraðar en á höfuðborgarsvæðinu. Munurinn á verðlagi eftir svæðunum fer því minnkandi þó enn sé talsvert ódýrara að kaupa húsnæði í Árborg samanborið við höfuðborgarsvæðið.
Mikil sala og miklar verðhækkanir hafa hvatt til íbúðauppbyggingar og samkvæmt talningu Samtaka iðnaðarins eru nú 33% fleiri íbúðir í byggingu umhverfis höfuðborgarsvæðið samanborið við stöðuna fyrir ári síðan. Fjöldi íbúða í byggingu á fyrstu stigum (að fokheldu) hefur aukist um 96% milli ára. Til samanburðar mælist samdráttur í íbúðum í byggingu á höfuðborgarsvæðinu upp á 18% milli ára, en fjöldi íbúða í byggingu á fyrstu stigum eykst líkt og annars staðar.
Lesa Hagsjána í heild:









