Íbúða­verð hækk­ar enn

Árið 2020 var mun líflegra á íbúðamarkaði en fyrstu spár bentu til þegar heimsfaraldurinn hófst. Viðskipti með íbúðarhúsnæði jukust verulega þegar leið á árið, m.a. vegna hagstæðari lánskjara, og verð tók að hækka. Hlutfallslega fleiri íbúðir seljast nú yfir ásettu verði sem bendir til þess að spenna sé nokkur á íbúðamarkaði.
Skólavörðustígur í Reykjavík
22. janúar 2021 - Hagfræðideild

Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali um 0,6% milli nóvember og desember. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,4% og verð á sérbýli um 1%. 12 mánaða hækkun íbúðaverðs mælist nú 7,7% og hefur ekki verið hærri síðan í febrúar 2018.

Sé horft til breytingar á meðaltali vísitölunnar milli ára hækkaði íbúðaverð alls um 4,8% í fyrra, sem er nokkuð nálægt því sem við spáðum í október (4,5%) en talsvert ofar því sem við spáðum í vor (2%), þegar áhrif faraldursins á fasteignamarkað voru mun óljósari. Frá aldamótum hefur íbúðaverð að jafnaði hækkað um 9% á ári. Hækkunin í fyrra er því alls ekki mikil í sögulegu samhengi þó hún sé nokkur í ljósi þess að nú ríkir mikill efnahagssamdráttur.

Viðskipti hafa aukist verulega, eða um 14% að jafnaði milli ára, á síðustu 12 mánuðum. Við sáum síðast slíka veltuaukningu árið 2016 og þá fylgdi mikil verðhækkun í kjölfarið. Við höfum nú þegar séð íbúðaverð byrja að hækka hraðar og samkvæmt þessu gæti enn verið innistæða fyrir frekari hækkunum. Þessi tengsl eru þó ekki alltaf augljós og er því langt frá því að vera einfalt að spá fyrir um þróun verðlags út frá viðskiptum einum og sér, eða öfugt, enda margir aðrir þættir sem geta haft áhrif á þróun fasteignamarkaðarins.

Við sjáum þó fleiri vísbendingar um að spenna sé að aukast á íbúðamarkaði. Hlutfall íbúða sem seljast yfir ásettu verði hefur til að mynda aukist verulega á höfuðborgarsvæðinu. Hlutfallið mældist 22% undir lok síðasta árs en var til samanburðar 8% árið áður, samkvæmt gögnum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Svona hátt hlutfall íbúða hefur ekki selst yfir ásettu verði síðan 2017.

Það er ljóst að fasteignamarkaðurinn kom nokkuð á óvart á síðasta ári. Þær vaxtalækkanir sem gripið var til, sem viðbragð við þeim efnahagsþrengingum sem faraldurinn olli, skiluðu sér í formi aukinnar eftirspurnar með tilheyrandi þrýstingi á verðlag. Meðan hagstæð lánskjör fást má gera ráð fyrir að þessi áhrif vari áfram þetta ár.

Lesa Hagsjá í heild

Hagsjá: Íbúðaverð hækkar enn

Þú gætir einnig haft áhuga á
9. sept. 2024
Vikubyrjun 9. september 2024
Í þessari viku ber hæst útgáfa á tölum um fjölda ferðamanna í ágúst og skráð atvinnuleysi á morgun. Í síðustu viku birtist fundargerð peningastefnunefndar þar sem fram kom að allir nefndarmenn voru sammála um að halda vöxtum óbreyttum á síðasta fundi, ólíkt því sem var síðustu þrjá fundi þar áður þar sem einn nefndarmaður vildi lækka vexti um 0,25 prósentustig.
6. sept. 2024
Mánaðaryfirlit yfir sértryggð skuldabréf - ágúst 2024
Meðfylgjandi er mánaðarlegt yfirlit sértryggðra skuldabréfa.
Lyftari í vöruhúsi
5. sept. 2024
Halli á viðskiptum við útlönd á 2. ársfjórðungi
Halli mældist á viðskiptum við útlönd á öðrum fjórðungi þessa árs, ólíkt öðrum ársfjórðungi í fyrra, þegar lítils háttar afgangur mældist. Það var afgangur af þjónustujöfnuði og frumþáttatekjum, en halli á vöruskiptum og rekstrarframlögum. Hrein staða þjóðarbúsins versnaði lítillega á fjórðungnum.
3. sept. 2024
Fréttabréf Hagfræðideildar 3. september 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Hagfræðideild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
Íslenskir peningaseðlar
2. sept. 2024
Vikubyrjun 2. september 2024
Verðbólga lækkaði óvænt á milli mánaða í ágúst. Hagkerfið dróst örlítið saman á milli ára á öðrum ársfjórðungi, en á sama tíma er nú ljóst að hagvöxtur í fyrra var meiri en áður var talið og einnig að samdráttur var minni á fyrsta ársfjórðungi. Í þessari viku birtir Seðlabankinn gögn um greiðslujöfnuð við útlönd og fundargerð peningastefnunefndar.
Bílar
30. ágúst 2024
Samdráttur annan ársfjórðunginn í röð
Hagkerfið dróst örlítið saman á milli ára á öðrum ársfjórðungi, samkvæmt nýbirtum þjóðhagsreikningum Hagstofunnar. Á sama tíma er nú ljóst að hagvöxtur var meiri í fyrra en áður var talið og samdráttur einnig minni á fyrsta ársfjórðungi. Umsvif í hagkerfinu eru því meiri en áður var talið þótt landsframleiðsla dragist saman.
Paprika
29. ágúst 2024
Verðbólga undir væntingum - lækkar í 6,0%
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,09% á milli mánaða í ágúst, samkvæmt nýbirtum tölum Hagstofu Ísland. Ársverðbólga lækkar því úr 6,3% í 6,0%, um 0,3 prósentustig. Vísitalan hækkaði nokkuð minna en við gerðum ráð fyrir, en við spáðum óbreyttri verðbólgu. Það sem kom okkur mest á óvart var lækkun á menntunarliðnum, sem skýrist af niðurfellingu á skólagjöldum einstaka háskóla. Verð á matarkörfunni lækkaði í fyrsta skiptið í þrjú ár. 
Flutningaskip
27. ágúst 2024
Halli á vöru- og þjónustuviðskiptum þrjá ársfjórðunga í röð
Afgangur af þjónustuviðskiptum náði ekki að vega upp halla af vöruviðskiptum á öðrum ársfjórðungi, ólíkt því sem var fyrir ári síðan. Bæði var meiri halli af vöruviðskiptum og minni afgangur af þjónustuviðskiptum en á öðrum fjórðungi síðasta árs.
Hús í Reykjavík
26. ágúst 2024
Vikubyrjun 26. ágúst 2024
Peningastefnunefnd hélt vöxtum óbreyttum í síðustu viku, eins og búist var við. Nokkur kraftur er í fasteignamarkaðnum og vísitala íbúðaverðs og vísitala leiguverðs hækkuðu báðar þó nokkuð í júlí. Í þessari viku fáum við verðbólgutölur fyrir ágústmánuð og þjóðhagsreikninga annars ársfjórðungs. 
Rafbíll í hleðslu
20. ágúst 2024
Ný aðferð hefur skilað lægri verðbólgumælingum
Hagstofan hefur frá því í júní notað nýja aðferð við að mæla kostnað við búsetu í eigin húsnæði. Hefði Hagstofan ekki breytt um aðferð væri verðbólgumælingin nú líklega hærri. Um næstu áramót áforma stjórnvöld að breyta innheimtu gjalda á ökutæki sem mun að líkindum einnig hafa áhrif til lækkunar á mældri verðbólgu.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur