Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali um 0,8% milli október og nóvember. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,9% og verð á sérbýli um 0,5%. 12 mánaða hækkun íbúðaverðs mælist nú 7,2% og hefur ekki verið hærri síðan í mars 2018. Frá því í júlí hafa verðhækkanir mælst nokkuð miklar milli mánaða, nálægt 1%, en voru til samanburðar 0,4% að jafnaði milli mánaða á fyrri hluta árs. Þessi umskipti á fasteignamarkaði má að líkindum rekja til vaxtalækkana sem gripið var til við upphaf Covid-19-faraldursins.
Almennt verðlag, án húsnæðiskostnaðar, hækkaði um 0,1% milli mánaða í nóvember og hækkaði raunverð íbúða því um 0,7% milli mánaða. Raunverð hefur hækkað stöðugt síðan í júlí og mælist 12 mánaða hækkun þess nú 2,9%. Íbúðaverð er því farið að hækka hraðar en verðlag annarra vara, þó munurinn sé minni en oft á árum áður.
Tölur síðustu mánaða benda til þess að eftirspurn hafi aukist verulega eftir íbúðarhúsnæði, enda lánskjör hagstæðari nú en oft áður. Mikið hefur verið byggt á síðustu árum af nýju húsnæði sem kemur sér vel þegar eftirspurn tekur jafn hressilega við sér og nú.
Við gerum ráð fyrir því að eftirspurn haldist áfram nokkuð mikil á meðan hagstæð lánskjör fást og því er mikilvægt að framboð íbúða til sölu sé einnig tryggt. Staðan virðist nokkuð góð sem stendur, en gæti breyst á næstu misserum með minni fjárfestingu.