Íbúð­a­upp­bygg­ing enn nokk­uð kröft­ug – út­lit fyr­ir að hægi á

Enn bendir flest til þess að nýjar íbúðir rísi með svipuðum hraða og í fyrra og hitteðfyrra. Velta í byggingariðnaði eykst enn og starfsfólk í greininni hefur ekki verið fleira frá árinu 2008. Íbúðum á fyrsta byggingarstigi fjölgar þó ekki eins og síðustu ár og vísbendingar eru um að fleiri íbúðir í byggingu standi ókláraðar en áður.
Byggingakrani og fjölbýlishús
11. ágúst 2023

Tæplega tvö þúsund nýjar íbúðir hafa risið á landinu það sem af er ári og uppbygging virðist álíka kröftug og á síðasta ári. Í fyrra risu þó nokkuð færri nýjar íbúðir en árin þrjú þar á undan og íbúðauppbygging er nokkuð langt frá því að vera í hámarki.

HMS spáir því að 2.843 nýjar íbúðir verði fullbúnar á árinu, álíka margar og í fyrra, og 2.814 á næsta ári, samtals 5.657. Það er nokkuð undir síðustu spá HMS um 6.375 nýjar fullbúnar íbúðir á næstu tveimur árum.

Íbúðum í byggingu hefur fjölgað sífellt milli talninga HMS. Þær voru 8% fleiri í mars en í september og 21% fleiri í mars í ár en í mars í fyrra.

Fjölgunin virðist þó ekki skýrast af auknum krafti í uppbyggingu heldur virðist meira um það en áður að framvinda í uppbyggingu íbúða standi í stað, eins og fjallað er nánar um hér í lokin.

Velta í byggingariðnaði eykst enn

Velta í byggingariðnaði hefur haldið áfram að aukast hratt síðustu mánuðina, samkvæmt virðisaukaskattsskýrslum. Hún var 17% meiri í mars og apríl á þessu ári en í sömu mánuðum í fyrra, á föstu verðlagi, og 36% meiri en í sömu mánuðum árið 2021. Munurinn milli ára er svipaður og verið hefur síðustu mánuði.

Áfram hefur starfsfólki í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð fjölgað hratt og greinin hefur ekki verið fjölmennari frá því árið 2008, þegar örlítið fleiri störfuðu í henni. Starfsfólkið er tæplega 19.000 og þótt það starfi ekki allt við byggingu íbúðarhúsnæði gefur fjöldinn vísbendingu um umsvifin í greininni. Byggingarstarfsemi reiðir sig verulega á aðflutt vinnuafl en um 34% starfsfólks í greininni eru innflytjendur, samkvæmt gögnum Hagstofunnar. Hlutfallið er mun hærra en á vinnumarkaði almennt þar sem um 22% þeirra sem starfa á landinu eru innflytjendur.

Eftirspurn eftir starfsfólki virðist hvergi meiri en í byggingarstarfsemi og í nýjustu könnun Gallup meðal 400 stærstu fyrirtækjanna sögðust 47% stjórnenda í greininni vilja fjölga starfsfólki á næstu sex mánuðum. Hlutfallið er þó minna en það hefur verið í síðustu könnunum, í júní í fyrra var það 56%, sem gefur til kynna að hugsanlega geri stjórnendur ráð fyrir að umsvifin minnki lítillega á næstunni.

Merki um að hugsanlega fari að hægja á

Þótt nýjum fullbúnum íbúðum fjölgi álíka hratt í ár og í fyrra eru vísbendingar um að hugsanlega fari að hægja á uppbyggingu. HMS spáir því að nýjar íbúðir verði mun færri árið 2025 en nú, 1.983 talsins. Samkvæmt nýjustu talningu HMS fóru færri ný byggingarverkefni af stað milli síðustu tveggja talninga en áður. Framkvæmdir hófust á 1.583 íbúðum milli talninga, þ.e. milli september á síðasta ári og mars á þessu ári. Í septembertalningunni voru nýjar framkvæmdir 2.574 og í marstalningunni 2022 voru þær 2.687.

Íbúðum á síðari byggingarstigum hefur líka fjölgað meira en þeim á fyrri stigum, sem gefur til kynna að verktakar setji í forgang að klára þau verkefni sem þegar eru hafin og hefjist síður handa við ný.  Íbúðir í byggingu á fyrsta framvindustigi eru álíka margar og í síðustu talningu, en þar áður hafði þeim tvisvar í röð fjölgað þó nokkuð milli talninga. Íbúðum á öðru framvindustigi hefur fækkað nokkuð.

Íbúðum á fjórða byggingarstigi hefur fjölgað mest og óvenjumargar íbúðir hafa haldist á því byggingarstigi frá síðustu talningu, í september. Íbúðirnar hafa þá verið gerðar fokheldar og framvindan svo stöðvast. Í skýrslu HMS kemur fram að það kunni að vera merki um að verktakar haldi að sér höndunum.

Ýmsir þættir kunna að hafa áhrif, svo sem verri vaxtakjör til fyrirtækja heldur en fyrir tveimur og þremur árum, verri vaxtakjör til einstaklinga og þar með minni eftirspurn eftir húsnæði til kaupa, óvissa um verðþróun á íbúðamarkaði og vaxtaþróun og einnig hærri launa- og byggingarkostnaður. Þó ber að hafa í huga að á síðustu tíu árum hefur íbúðaverð hækkað langtum hraðar en byggingarkostnaður og laun og þótt verulega hafi hægt á hækkunum íbúðaverðs er langt frá því að laun og byggingarkostnaður hafi náð í skottið á því.

Landsmönnum fjölgaði um 3,4% á 12 mánuðum

Íbúum á Íslandi fjölgar sífellt hraðar og á öðrum ársfjórðungi þessa árs voru þeir 3,4% fleiri en á öðrum ársfjórðungi í fyrra. Fjölgunin var 3,1% á síðasta ári og hafði aldrei verið jafnmikil á einu ári, en nú er útlit fyrir að hún verði jafnvel enn meiri á þessu ári. Eftir því sem landsmönnum fjölgar hlýtur þörf á húsnæði að aukast og því athyglisvert að merki séu um að verktakar byrji síður á nýjum byggingarverkefnum en áður og bíði jafnvel með að klára fokheldar íbúðir.

Síaukin þörf á húsnæði hefur líklega hjálpað til við að halda lífi í íbúðamarkaði á sama tíma og þættir á borð við hærri vexti og skert aðgengi að lánsfé hafa slegið á eftirspurnina. Um leið og lánakjör batna má búast við að eftirspurnin aukist, svo sem við það að ungt fólk sjái sér betur fært að flytja úr foreldrahúsum eða úr leiguíbúð sem það deilir með fleirum. Þá eykst líka aftur hvatinn til þess að eiga aukaíbúð til þess að leigja út, ekki síst ef ferðamönnum heldur áfram að fjölga eins og nú. Íbúðaverð gæti þá farið hækkandi á ný, nema framboðið magn haldi í við eftirspurnina.  

Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara.

Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti.

Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.
Þú gætir einnig haft áhuga á
15. apríl 2024
Vikubyrjun 15. apríl 2024
Verðbólga hjaðnar þó nokkuð í apríl, úr 6,8% í 6,1%, en breytist lítið næstu mánuði þar á eftir og verður 5,9% í júlí, samkvæmt okkar nýjustu verðbólguspá. Þótt vaxtahækkanir hafi slegið nokkuð á eftirspurn má enn greina kraft í hagkerfinu og spennu á vinnumarkaði. Þá mælast verðbólguvæntingar enn vel yfir markmiði.
Epli
11. apríl 2024
Spáum lækkun verðbólgu úr 6,8% í 6,1%
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,61% á milli mánaða í apríl og að ársverðbólgalækki töluvert, eða úr 6,8% í 6,1%. Mest áhrif til hækkunar í spá okkar hafa reiknuð húsaleiga, flugfargjöld til útlanda og matarkarfan. Apríl í fyrra var stór hækkunarmánuður og þar sem við gerum ráð fyrir töluvert minni mánaðarhækkun nú lækkar ársverðbólga töluvert. Á móti gerum við ekki ráð fyrir því að verðbólga lækki mikið næstu mánuði þar á eftir og búumst við því að hún verði 5,9% í júlí.
Gönguleið
8. apríl 2024
Vikubyrjun 8. apríl 2024
Um 14% fleiri ferðamenn fóru um Keflavíkurflugvöll í febrúar síðastliðnum en í febrúar í fyrra. Ferðamenn gistu þó skemur en áður, því skráðum gistinóttum fækkaði um 2,7% á milli ára í febrúar.
3. apríl 2024
Fréttabréf Hagfræðideildar 3. apríl 2024
Mánaðarlegt fréttabréf frá Hagfræðideild um nýjustu hagtölur og stöðu og horfur í efnahagsmálum.
2. apríl 2024
Vikubyrjun 2. apríl 2024
Um 30% fyrirtækja vilja fjölga starfsfólki á næstu sex mánuðum, samkvæmt nýjustu könnun Gallup meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins sem var framkvæmd í mars. Hlutfallið eykst úr 23% frá síðustu könnun sem var gerð í desember.  
Íbúðir
26. mars 2024
Hækkandi íbúðaverð kyndir undir verðbólgu
Vísitala neysluverðs hækkaði um 0,8% milli mánaða í mars og við það jókst ársverðbólga úr 6,6% í 6,8%. Langmest áhrif til hækkunar í mælingunni má rekja til hækkunar á íbúðaverði, og þá sérstaklega utan höfuðborgarsvæðisins. Verð á nýjum bílum hafði mest áhrif til lækkunar í mars.
Seðlabanki
25. mars 2024
Vikubyrjun 25. mars 2024
Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti á miðvikudag að stýrivöxtum yrði haldið óbreyttum í 9,25%. Ákvörðunin var í samræmi við spá okkar, en tónninn í yfirlýsingunni var harðari en við bjuggumst við.
Ferðamenn
18. mars 2024
Vikubyrjun 18. mars 2024
Gögn síðasta árs benda til þess að þeir ferðamenn sem hingað komu hafi að meðaltali dvalið skemur en árið á undan en aftur á móti eytt meiru á dag.
Vélsmiðja Guðmundar
15. mars 2024
Að flytja út „annað“ er heldur betur að skila sér
Útflutningur hefur alltaf verið mjög mikilvægur fyrir Íslendinga og íslenskan efnahag. Lengst af var fiskurinn okkar aðal útflutningsvara, svo bættist álið við og nú síðasta áratuginn eða svo hefur ferðaþjónusta rutt sér til rúms og er orðin stærsta einstaka útflutningsvara Íslendinga. Á síðustu árum hefur annar útflutningur, þ.e. útflutningur sem ekki heyrir undir neinn þessara flokka, vaxið hratt og raunar hraðar en ferðaþjónustan, þó faraldurinn torveldi samanburðinn aðeins.
Fjölbýlishús
14. mars 2024
Spáum 6,6% verðbólgu í mars
Við spáum því að vísitala neysluverðs hækki um 0,57% milli mánaða í mars og að ársverðbólga verði óbreytt í 6,6%. Mest áhrif til hækkunar í spá okkar hafa reiknuð húsaleiga, flugfargjöld til útlanda, föt og skór og matarkarfan. Við eigum enn von á að verðbólgan hjaðni rólega næstu mánuði og verði komin niður í 5,4% í júní.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur