Íbúðafjárfesting dregst saman
Samantekt
Íbúðafjárfesting dróst saman um 9,8% milli ára á þriðja ársfjórðungi samkvæmt nýbirtum þjóðhagsreikningum Hagstofu Íslands. Engu að síður var mikið fjárfest í íbúðarhúsnæði á fjórðungnum, eða fyrir 41,3 ma.kr. á verðlagi ársins 2020, sem er aukning frá fyrsta og öðrum fjórðungi ársins. Frá upphafi árs 2019 hefur íbúðafjárfesting mælst að jafnaði tæplega 42 ma.kr. á hverjum ársfjórðungi fyrir sig en slíkt hafði ekki sést síðan 2007. Frá upphafi árs 2006 hefur að jafnaði verið fjárfest fyrir 27,4 ma.kr. á hverjum ársfjórðungi.
Það getur reynst gagnlegt að skoða íbúðafjárfestingu sem hlutfall af landsframleiðslu til þess að leggja mat á það hvort verið sé að fjárfesta mikið eða lítið. Í ljós kemur að frá árinu 1995 hefur að jafnaði 4,1% af vergri landsframleiðslu komið til vegna íbúðafjárfestingar. Á þriðja ársfjórðungi þessa árs mældist íbúðafjárfesting 5,2% af landsframleiðslu og er því verið að fjárfesta talsvert í íbúðarhúsnæði miðað við sögulega þróun, þrátt fyrir samdrátt milli ára. Frá því á fjórða ársfjórðungi 2018 hefur íbúðafjárfesting sem hlutfall af vergri landsframleiðslu mælst ofar meðaltalinu frá 1995.
Íbúðafjárfesting þarf jafnan að þróast í takt við mannfjöldaaukningu í landinu til þess að allir hafi þak yfir höfuðið. Á þriðja fjórðungi ársins fluttu 2.500 fleiri einstaklingar til landsins en frá því, sem er mesti fjöldi aðfluttra umfram brottflutta á stökum ársfjórðungi síðan 2017. Þörf fyrir nýjar íbúðir eykst eðli málsins samkvæmt við slíkar aðstæður og er því mikilvægt að íbúðafjárfesting sé einnig sterk. Við spáum því að íbúðafjárfesting aukist um 2% milli ára á næsta ári og 5% á þarnæsta ári.