Íbúðafjárfesting dróst saman um 3% milli ára á öðrum ársfjórðungi samkvæmt nýbirtum þjóðhagsreikningum Hagstofu Íslands. Engu að síður var mikið fjárfest í íbúðarhúsnæði á fjórðungnum, eða fyrir tæplega 40 ma.kr. á verðlagi ársins 2020. Frá upphafi árs 2019 hefur íbúðafjárfesting mælst nokkuð mikil hér á landi, eða ríflega 40 ma.kr. á hverjum ársfjórðungi, en slíkt hefur ekki sést síðan 2007. Við göngum því nú í gegnum uppbyggingarskeið sem er ekki ósvipað því sem sást á árunum 2006-2008.
Með útgáfu Hagstofunnar voru áður birtar tölur endurskoðaðar og kemur í ljós að íbúðafjárfestingin var nokkuð meiri í fyrra en áður var talið. Alls var fjárfest fyrir 172 ma. kr. á verðlagi þess árs, sem er mesta íbúðafjárfesting á einu ári síðan 2007, og jókst íbúðafjárfesting um 1% að raunvirði frá árinu 2019. Með þessu staðfestist að uppbyggingin er nokkuð mikil um þessar mundir sem kemur sér vel þegar eftirspurn er mikil eftir íbúðarhúsnæði og nýjar íbúðir virðast seljast vel.
Nú þegar hafa yfir 1.800 íbúðir á landsvísu fengið skráð byggingarár 2021 sem er svipaður fjöldi og sást allt árið 2017. Enn eiga tölur eftir að berast fyrir síðustu fjóra mánuði ársins og er því viðbúið að fjöldinn eigi eftir að aukast. Í fyrra fengu 3.344 íbúðir skráð byggingarár 2020 sem var mesti fjöldi síðan 2006.
Sem fyrr segir svipar uppbyggingunni nú mjög til þess sem sást á árunum fyrir hrun. Sá munur er þó á uppbyggingunni nú og þá að sérbýli eru hlutfallslega fátíðari í byggingu um þessar mundir. Frá árinu 2019 hafa um 20% af byggðum íbúðum verið sérbýli en í síðustu uppsveiflu á byggingarmarkaði, á árunum 2006-2008, var hlutfallið 37%. Þessi þróun er óheppileg í ljósi þess að eftirspurn hefur aukist einna mest eftir sérbýli, en samkvæmt nýjustu upplýsingum frá Þjóðskrá mælist 12 mánaða hækkun sérbýlis nú tæp 19% á meðan að hækkunin í fjölbýli mælist 14%.