Hóflegri hækkun íbúðaverðs í júlí

Samkvæmt nýbirtum tölum Þjóðskrár Íslands hækkaði íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu að meðaltali um 0,7% milli júní og júlí. Fjölbýli hækkaði um 0,1% og sérbýli um 3,0%. Vegin árshækkun mælist nú 15,4% og lækkar frá því í júní, þegar hún mældist 16%.
Það mælist talsverður munur á verðþróun eftir gerð húsnæðis. 12 mánaða hækkun sérbýlis mælist nú 18,9%, hækkar frá því í júní, og hefur ekki verið hærri síðan í nóvember 2017. Á sama tíma mælist 12 mánaða hækkun fjölbýlis 14,1% og lækkar frá því í júní, þegar hún mældist 15,3%.
Það er alla jafna meira flökt á verðþróun sérbýlis milli mánaða þar sem mun færri samningar eru undir samanborið við fjölbýli. En hækkunin milli mánaða nú er þó engu að síður nokkuð mikil. Þróunin hefur verið slík frá upphaf Covid-faraldursins að eftirspurnin virðist hlutfallslega hafa aukist meira eftir stærri eignum í sérbýli sem hækka því meira í verði.
Það er óhætt að segja að þessi litla hækkun milli mánaða nú sé kærkomin tilbreyting eftir miklar hækkanir síðustu mánaða, en frá því í mars hefur hækkunin milli mánaða mælst á bilinu 1,4%-3,3%. Það er alls óvíst á þessari stundu hvort almennt sé farið að hægja á, eða hvort um tímabundin áhrif sumarleyfa sé að ræða.
Lesa Hagsjána í heild









