Hófleg skuldsetning þrátt fyrir hækkandi íbúðaverð
Í desember námu hrein ný íbúðalán innlánastofnana alls 18,6 mö.kr. samkvæmt nýútgefnum tölum Seðlabanka Íslands. Útlánavöxturinn í mánuðinum var drifinn áfram af töku óverðtryggðra lána líkt og verið hefur á síðustu misserum, en er þetta í fyrsta sinn sem nettóaukningin er alfarið vegna óverðtryggðra lána á föstum vöxtum. Þetta er vísbending um að fólk telji meiri líkur en minni á áframhaldandi vaxtahækkunum og vilji tryggja sig gegn þeim.
Þegar árið í heild er skoðað sést að hrein ný íbúðalán innlánastofnana námu samtals 307 mö.kr. og voru nær óbreytt milli ára, þrátt fyrir ríflega 14% hækkun íbúðaverðs milli ára og 10% aukningu seldra íbúða á landsvísu. Það eru því vísbendingar um að fólk sé almennt ekki að fara fram úr sér í skuldsetningu þrátt fyrir aukna sölu og hækkandi verð.
Íbúðalánamarkaður hefur tekið miklum breytingum á síðustu misserum. Þegar Seðlabankinn hóf að lækka stýrivexti af miklum krafti á árinu 2020 fylgdu vextir óverðtryggðra íbúðalána svipaðri þróun sem gerði það að verkum að greiðslubyrði þeirra lána lækkaði verulega og óverðtryggðu lánin urðu ákjósanlegri fyrir marga lántaka. Við sjáum því nú tvö ár í röð þar sem uppgreiðslur voru meiri en ný lántaka á verðtryggðum lánum og útlánavöxtur innlánastofnana alfarið drifinn áfram af töku óverðtryggðra lána.
Þegar Seðlabankinn hóf svo að hækka stýrivexti á ný í maí í fyrra varð sífellt algengara að fólk tæki lán á föstum frekar en breytilegum vöxtum. Þegar árið í heild er skoðað sést að lán á föstum vöxtum eru um helmingur af nettó nýrri lántöku, eða samtals 162 ma.kr., sem er mikil breyting frá árinu 2020 þegar þau voru um 2%.