Hlutfall íbúða í eigu þeirra sem eiga fleiri en eina íbúð helst stöðugt

Þjóðskrá hóf nýverið að birta gögn um eignarhald á íbúðastofni landsins og kemur í ljós hlutfall íbúða í eigu aðila sem eiga fleiri en eina íbúð hefur haldist nokkuð stöðugt síðustu ár. Það er því ekki að sjá að mikil eftirspurn síðustu mánaða sé vegna einstaklinga eða lögaðila sem eru að kaupa sína aðra eða þriðju íbúð. Þvert á móti hafa fyrstu kaupendur orðið fyrirferðameiri og þar með hefur hlutfall íbúða í eigu aðila sem eiga eina fasteign aukist lítillega á sama tíma og hlutfall þeirra sem eiga fleiri en eina íbúð hefur lækkað.
Um aldamótin var um 25% af íbúðastofni landsins í eigu einstaklinga eða lögaðila sem áttu fleiri en eina íbúð. Rúmum áratug síðar, eða árið 2012, var hlutfallið komið upp í 35% og hefur haldist nær óbreytt síðan þá. Mest fór það upp í 35,9% árið 2017. Núna er 35,1% af íbúðastofni landsins í eigu aðila sem eiga fleiri en eina íbúð.
Samkvæmt nýjustu upplýsingum Þjóðskrár bættust um 3.700 íbúðir við íbúðastofn landsins í fyrra sem er mesti fjöldi á stöku ári síðan 2007. Íbúðum í eigu einstaklinga sem eiga eina íbúð fjölgaði um tæplega 2.800 og íbúðum í eigu þeirra sem eiga fleiri en eina íbúð fjölgaði um 960. Síðustu ár hefur fjölgun íbúða í eigu aðila sem eiga einungis eina íbúð verið meiri en á meðal þeirra sem eiga fleiri íbúðir.
Lesa Hagsjána í heild:
Hagsjá: Hlutfall íbúða í eigu þeirra sem eiga fleiri en eina íbúð helst stöðugt









