Hagsjá: Vinnumarkaðurinn virðist halda styrk sínum áfram
Samantekt
Hægir á vexti einkaneyslu
Tölur Hagstofunnar að undanförnu hafa bent til þess að toppinum á vinnumarkaðnum væri náð og ýmsar stærðir séu farnar að gefa eftir. Tölur Hagstofunnar fyrir apríl benda hins vegar til þess að enn sé mikill kraftur á vinnumarkaðnum.
Sé miðað við meðaltal síðustu 12 mánaða hefur fjöldi starfandi aldrei verið meiri en nú, eða rúmlega 195 þúsund að meðaltali á síðustu 12 mánuðum. Fjölda starfandi hafði engu að síður fækkað um 3.400 manns frá því í apríl í fyrra.
Atvinnuþátttaka jókst stöðugt frá upphafi ársins 2015 fram til vorsins 2017. Síðan þá hefur dregið úr atvinnuþátttöku um 1,7 prósentustig sé miðað við 12 mánaða hlaupandi meðaltal. Á sama mælikvarða er atvinnuþátttaka nú svipuð og var vorið 2015.
Vinnutími var töluvert lengri í apríl en mánuðina þar á undan. Sé miðað við 12 mánaða meðaltal lengdist vinnutíminn í apríl eftir styttingu í nokkra mánuði þar á undan. Vinnutíminn í apríl 2018 var nokkurn veginn sá sami og var í apríl 2017. Fjöldi vinnustunda þróast á tiltölulega þröngu bili og hefur þróunin frekar verið niður á við.
Sé litið á breytinguna milli 1. árfjórðungs 2017 og 2018 fer saman að vinnutími hefur lengst um 0,7% á meðan fjöldi starfandi hefur aukist um 1,6%. Það þýðir að vinnuaflsnotkun eða heildarvinnustundum hefur fjölgað um 2,3% milli ársfjórðunga. Þessi niðurstaða rímar því ekki sérstaklega vel við umræðu að hagsveiflan hafi náð hámarki og passar reyndar betur við niðurstöður Hagstofunnar um að hagvöxtur á 1. ársfjórðungi 2018 hafi verið meiri en flestir bjuggust við. Það er hins vegar hugsanlegt að hér sé um tímabundna sveiflu að ræða, t.d. er möguleiki að sjómannaverkfallið í fyrra haft þau áhrif að breytingar milli ára séu meiri en ella.
Atvinnuleysi minnkaði stöðugt fram á mitt síðasta ár, en síðan hefur dregið verulega úr breytingum. Meðalatvinnuleysi síðustu 12 mánaða miðað við mælingar Hagstofunnar var 2,9% í apríl og hefur sú tala verið nær óbreytt í eitt ár. Meðalatvinnuleysi síðustu 12 mánaða samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar um skráð atvinnuleysi var 2,1% nú í apríl, en 2,2% í apríl í fyrra.
Niðurstöður vorkönnunar Gallup meðal 400 stærstu fyrirtækja landsins bentu til þess að störfum myndi fjölga áfram á fyrri hluta þessa árs. Þau fyrirtæki sem vildu fjölga starfsfólki voru þannig um 17% fleiri en þau sem vildu fækka fólki sem er svipað hlutfall og hefur verið í samsvarandi könnun nokkur síðustu skipti. Sérfræðingar hafa að undanförnu verið sammála um að hagsveiflan hafi náð hámarki. Síðustu mánuði voru komnar fram vísbendingar um að hægt hefði á vinnumarkaðnum en þessar niðurstöður kunna að benda til annars.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Vinnumarkaðurinn virðist halda styrk sínum áfram (PDF)