Samantekt
Samkvæmt vinnumarkaðsrannsókn Hagstofu Íslands voru um 198 þúsund manns á aldrinum 16–74 ára á vinnumarkaði í nóvember 2017, sem jafngildir 80,5% atvinnuþátttöku. Í nóvember 2016 voru um 199 þúsund manns á vinnumarkaði og eru því um 1 þúsund manns færri á vinnumarkaði en fyrir ári.
Atvinnuþátttaka hefur þannig leitað heldur niður á við upp á síðkastið og starfandi fólki er hætt að fjölga jafn mikið og verið hefur. Í lok síðasta árs var atvinnuþátttaka álíka mikil og hún varð mest fyrir fjármálakreppuna. Þetta kann að vera vísbending um að vöxtur vinnuaflseftirspurnar hafi náð hámarki en einnig að vinnumarkaðurinn verði áfram kröftugur.
Vinnutími heldur einnig áfram að styttast samkvæmt vinnumarkaðskönnuninni. Ef litið er framhjá mánaðarlegum sveiflum og horft á 12 mánaða hlaupandi meðaltal var meðalvinnutími í nóvember 0,3 stundum styttri en í nóvember 2016. Þar sem fólki á vinnumarkaði er hætt að fjölga fer heildarvinnustundum fækkandi en það hefur ekki gerst síðan á seinni hluta ársins 2012.
Hagstofan mældi atvinnuleysi upp á 1,7% í nóvember og hefur það sveiflast mikið á milli mánaða upp á síðkastið. Sé litið á 12 mánaða meðaltal hefur atvinnuleysi minnkað um 0,2 prósentustig frá nóvember 2016, úr 3,0% niður í 2,8%.
Tölur um búferlaflutninga benda til áframhaldandi fjölgunar erlends starfsfólks í landinu þótt því hafi upp á síðkastið fjölgað hægar en var á öðrum fjórðungi ársins. Í nóvember hafði Vinnumálastofnun gefið út um 1.660 atvinnuleyfi á árinu 2017. Helmingur þeirra útlendinga sem hafði fengið atvinnuleyfi á árinu 2017 er yngri en 30 ára sem er svipað og verið hefur undanfarin ár. Um 1.150 erlendir ríkisborgarar voru atvinnulausir í lok nóvember, eða 28% allra atvinnulausra. Það samsvarar um 4,6% atvinnuleysi meðal erlendra ríkisborgara.
Atvinnuleysi er orðið lítið og minnkar tæplega mikið úr þessu. Sé litið á tölur um skráð atvinnuleysi frá nóvember sést að Suðurnes og Norðurland eystra skera sig úr og er atvinnuleysi meira þar en á hinum svæðunum.
Sé litið á atvinnuleysi eftir kynjum sést að síðustu 12 mánuði hefur mesta atvinnuleysið verið meðal kvenna á Suðurnesjum og á Norðurlandi eystra. Meðal karla er myndin svipuð, en þar eru Vestfirðir skammt undan.