Hagsjá: Vinnumarkaður í óvissu en áfram sjást merki um töluverðan styrk
Samantekt
Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðskönnunar Hagstofunnar er áætlað að um 210 þús. manns hafi verið á vinnumarkaði í október 2019, sem jafngildir 81,2% atvinnuþátttöku. Af þeim voru u.þ.b. 202 þús. starfandi og 7.400 atvinnulausir. Starfandi fólki hefur fjölgað mikið í uppsveiflunni í hagkerfinu sem nú er að ljúka og er enn að fjölga. Sé litið á niðurstöður vinnuaflskönnunar voru starfandi þannig 4.700 fleiri nú í október en í október í fyrra.
Eins og áður segir voru 7.400 manns atvinnulausir í október samkvæmt vinnumarkaðskönnun, eða um 3,5% af vinnuafli. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar voru um 7.700 manns á atvinnuleysiskrá í lok október, 4.219 karlar og 3.481 konur. Karlar voru því um 55% atvinnulausra, en voru um 52% í október í fyrra. Aukning skráðs atvinnuleysis á síðustu 12 mánuðum hefur því bitnað hlutfallslega verr á körlum en konum. Frá því í október í fyrra hefur atvinnulausum fjölgað um 3.015 manns, eða um 64%. Atvinnulausum körlum hefur fjölgað um 1.762 (72%) og konum um 1.253 (56%).
Sé litið á breytingu á skráðu atvinnuleysi síðustu 12 mánuði hefur aukningin verið langsamlega mest á Suðurnesjum. Í október í fyrra var skráð atvinnuleysi þar 3,5% og var þá meira en annars staðar á landinu. Á síðustu 12 mánuðum hefur atvinnuleysi þar aukist um 3,8 prósentustig og var orðið 7,3% nú í október. Næstmesta atvinnuleysið á landinu nú í október var á höfuðborgarsvæðinu þar sem það var 4% og hafði aukist um 1,5 prósentustig frá því í október í fyrra. Suðunes og höfuðborgarsvæðið skera sig nokkuð frá öðrum svæðum, en þriðja mesta atvinnuleysið nú í október var á Norðurlandi eystra, 3,2%. Nú í október var atvinnuleysið minnst á Norðurlandi vestra, 1,2%, og hafði minnkað um 0,4 prósentustig milli ára.
Vikulegur vinnutími var að jafnaði 38,5 stundir í október og hafði styst um 0,5 stundir frá fyrra ári. Sé miðað við 12 mánaða meðaltal var vinnutíminn nú í október 39 stundir sem er 0,2 stundum minna en í október 2018.
Séu breytingar á fjölda starfandi og vikulegum vinnutíma teknar saman milli ára hefur vinnuaflsnotkun aukist nær samfellt allt frá árinu 2012. Frá nóvember 2018 fram til nóvember 2019 jókst fjöldi starfandi um 1,7% á meðan vinnutími styttist um 1,3%. Þetta felur í sér að vinnuaflsnotkun jókst um 0,4% milli ára. Samsvarandi tala fyrir september var jákvæð um 2,3%, en í ágúst var hún neikvæð um 2,9%. Á síðustu 12 mánuðum hefur breyting vinnuaflsnotkunar verið jákvæð í níu mánuðum og neikvæð í þremur. Sé litið til þeirrar þróunar má því enn sjá einhver styrkleikamerki á vinnumarkaði.
Fyrr á árinu var reiknað með töluvert auknu atvinnuleysi eftir því sem liði á árið og að staða á vinnumarkaði myndi versna. Þróunin hefur verið hægari en reiknað var með.
Fjöldi uppsagna í lok 3. ársfjórðungs jók nokkuð á svartsýni um þróun vinnumarkaðar á næstunni. Í þessu sambandi hafa augun fyrst og fremst beinst að ferðaþjónustu, þar sem búast mætti við hagræðingu í rekstri eftir sumarið í ljósi töluverðar fækkunar ferðamanna. Eins og oft þegar hægir á í hagkerfinu hefur verið horft til byggingamarkaðar um fækkun starfa, en nýjustu tölur um íbúðafjárfestingu benda ekki til mikils samdráttar. Spurningin um næstu loðnuvertíð skiptir líka miklu sums staðar á landinu.
Líklegt má telja að atvinnuleysi muni aukast eitthvað á næstu misserum, þó ekki eins mikið og reikna mátti með á tímabili. Hagfræðideild reiknar með að skráð atvinnuleysi verði að meðaltali 3,6% í ár, 4% á árinu 2020 og 3,5% á árunum 2021 og 2022.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Vinnumarkaður í óvissu en áfram sjást merki um töluverðan styrk (PDF)