Hagsjá: Veruleg aukning á fjárfestingum ríkissjóðs í ár í sérstöku átaki
Samantekt
Alþingi hefur samþykkt tillögu til þingsályktunar um sérstakt, tímabundið fjárfestingarátak í samræmi við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem ætlað er að vinna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19. Samhliða því voru samþykkt fjáraukalög þar sem heimild er veitt til þess að auka útgjöld ríkissjóðs um 25,6 ma. kr. í ár. Síðustu fjárlög voru samþykkt með tæplega 10 ma. kr. halla. Það er hins vegar fyrirsjáanlegt að halli ríkissjóðs verði mun meiri á árinu og að betur megi ef duga skal.
Í fjáraukalögunum voru einnig gefnar heimildir til frestunar á greiðslu opinberra gjalda og til að veita lánastofnunum ábyrgð ríkissjóðs sem nemi 50–70% höfuðstóls viðbótarlána þeirra til fyrirtækja sem orðið hafa fyrir verulegu tekjutapi vegna heimsfaraldursins. Þá var einnig heimilað að auka lántökur úr 45 mö.kr. upp í 140 ma. kr. og að auka hlutafé í opinberum fyrirtækjum um 8 ma. kr. til að auka fjárfestingagetu þeirra.
Við framlagningu tillögu um fjárfestingarátak voru lögð til verkefni upp á 15 ma. kr., en við vinnslu málsins kom fram breytingartillaga frá meirihluta fjárlaganefndar um að auka framlög til fjárfestinga upp í tæpa 18 ma. kr., sem var samþykkt. Skilyrði til að hægt sé að veita framlög til verkefna er að þau hefjist eigi síðar en 1. september 2020 og sé að fullu lokið eigi síðar en 1. apríl 2021.
Í greinargerð með þingsályktunartillögunni um fjárfestingarátakið er getið um að stærri tillögur, sem taki til áranna 2021-2023, séu í undirbúningi.
Þá hefur einnig komið fram að sveitarfélögin vilji fá endurgreiddan virðisaukaskatt af framkvæmdum sem þau hyggjast ráðast í til að bæta stöðu atvinnulífsins. Markmið sveitarfélaganna er að flýta framkvæmdum fyrir 15 ma. kr. í þessu sambandi. Fram hefur komið að sett hafi verið markmið um 15 ma. kr. flýtiframkvæmdir sem virðast ætla að ganga eftir.
Ákvarðanir af þessu tagi eiga sér væntanlega ekki hliðstæðu en til þeirra er gripið með hraði nú við þær sérstöku og alvarlegu aðstæður sem ríkja í efnahagslífinu.
Sé litið á tillögu meirihluta fjárlaganefndar um 18 ma. kr. viðbót við það sem þegar hafði verið ákveðið um fjárfestingar ríkissjóðs sést að samgöngumálin eru í forgangi. Lagt er til að 36% viðbótarinnar fari til samgöngumannvirkja. Lagt er til að um 11% fari til annarra innviðaframkvæmda þannig að tæpur helmingur viðbótarinnar fer til beinna innviðaframkvæmda.
Það kemur svo sem ekki á óvart að samgöngumál séu í forgangi. Þörfin er augljós en þar að auki er jafnan fjöldi samgönguverkefna í undirbúningi og því tiltölulega auðvelt að hraða verkefnum af því tagi.
Fjárfesting ríkissjóðs var um 62 ma. kr. á árinu 2019. Í gildandi fjárlögum er gert ráð fyrir u.þ.b. 74 ma. kr. framlögum til fjárfestinga á árinu 2020. Viðbótin frá síðasta ári var þegar orðin töluverð. Nú er því verið að ræða um rúmlega 90 ma. kr. viðbót við fjárfestingar ríkissjóðs á síðasta ári auk mögulegra fjárfestinga ríkisfyrirtækja. Viðbótin við fjárfestingar miðað við síðasta ár er því veruleg, eða aukning um rúmlega helming miðað við stöðuna í dag.
Fjárfestingar sveitarfélaganna í fyrra voru um 43 ma. kr. þannig að 15 ma. kr. flýting myndi nema u.þ.b. þriðjungi af umfangi fjárfestinga á árinu 2019.
Almennt má segja að ríkissjóður leitist við að ná tveimur efnahagslegum markmiðum með því að auka fjárfestingar sínar. Í fyrsta lagi að styðja við eftirspurn á erfiðum tímum með framkvæmdum og horfa þá til þess að nýta innlenda framleiðsluþætti í sem mestum mæli, sérstaklega mannafla. Í öðru lagi er ávallt horft til þess að reyna að stuðla að aukinni framleiðni með áherslu á efnahagslega arðbær verkefni þannig að samkeppnishæfi hagkerfisins aukist.
Tímapunkturinn fyrir aðgerðir af þessu tagi er augljós. Oft var þörf en nú er hrein nauðsyn fyrir opinbera aðila, og þá einkum ríkissjóð, að láta hressilega til sín taka.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Veruleg aukning á fjárfestingum ríkissjóðs í ár í sérstöku átaki (PDF)