Hagsjá: Verð á fjölbýli hækkaði nokkuð í apríl
Samantekt
Samkvæmt tölum Þjóðskrár hækkaði fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu um 0,3% milli mars og apríl. Verð á fjölbýli hækkaði um 0,4% og verð á sérbýli um 0,1%. Horft yfir 12 mánaða tímabil hefur verð á fjölbýli hækkað um 3,9% og verð á sérbýli um 6,5%. Vegin árshækkun húsnæðisverðs nemur nú 4,7%, sem er 0,4 prósentustiga hækkun frá fyrri mánuði.
Vísitala neysluverðs án húsnæðis hækkaði um 0,5% milli mánaða í apríl og 2,8% á einu ári, eða nokkuð minna en fasteignaverð á árinu. Raunverð fasteigna breyttist því lítið milli mánaða. Horft yfir lengra tímabil hefur hófleg hækkun fasteignaverðs síðustu mánuði náð að halda nokkurn veginn í við þróun verðbólgunnar án fasteignakostnaðar. Því hefur raunverð íbúðarhúsnæðis verið nokkuð stöðugt. Raunverð fór hæst í október 2007 fyrir hrun en lækkaði svo mikið. Það náði aftur sama stigi í apríl 2017 og hefur síðan hækkað um u.þ.b. 8%.
Árshækkun raunverðs er orðin hóflegri en áður. Þannig var raunverð fasteigna nú í apríl um 1,8% hærra en í apríl 2018. Hækkun raunverðs síðustu 12 mánuði er mun minni en árin tvö þar á undan. Samsvarandi tölur voru 5,6% fyrir apríl 2018 og 25% fyrir apríl 2017.
Sé litið á gögn í verðsjá Þjóðskrár Íslands, sem ekki eru nákvæmlega sömu gögn og standa á bak við vísitölu íbúðaverðs, sést mikill munur á verðþróun á nýju og eldra húsnæði. Séu janúar, febrúar og mars í ár bornir saman við sömu mánuði í fyrra má sjá að nýjar íbúðir hafa hækkað um 7,5% á þessum tíma en eldri íbúðir lækkað um 1,2%. Meðalbreytingin er 0,5% hækkun. Það eru því nýjar íbúðir sem leiða verðþróunina um þessar mundir.
Viðskipti með íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu í apríl voru með ívið minni en síðustu mánuði þar á undan 2018, enda voru páskarnir í apríl í ár. Fjöldi viðskipta fyrstu fjögurra mánaða ársins var þó nokkuð meiri en á sama tíma fyrir ári. Viðskipti á fyrstu fjórum mánuðum ársins voru ívið minni en var að meðaltali á öllu árinu 2018. Það má því segja að fasteignamarkaðurinn sé tiltölulega stöðugur hvað fjölda viðskipta varðar.
Í nýlegri þjóðhagsspá Hagfræðideildar Landsbankans var bent á að líklega muni um 7.700 nýjar íbúðir verða fullkláraðar á höfuðborgarsvæðinu í ár og á næstu tveimur árum. Samtímis gengur umræðan, t.d. í tengslum við nýgerða kjarasamninga, út á að um mikla eftirspurn sé að ræða eftir litlum og ódýrum íbúðum. Stór hluti íbúða sem eru á leiðinni á markað eru væntanlega of stórar og of dýrar til þess að leysa þann vanda sem fyrir er. Ekki hafa komið fram endanlegar tillögur eða útfærslur á yfirlýsingum ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál í tengslum við kjarasamninga. Ýmislegt bendir til þess að tillögur muni miða að því að stórauka byggingu á litlu og hentugu húsnæði. Það er því ákveðin hætta á því að á næstu árum geti gengið erfiðlega að selja einhvern hluta þeirra íbúða sem nú eru á teikniborðinu og í byggingu.
Eins og einnig kemur fram í nýlegri þjóðhagsspá Hagfræðideildar Landsbankans er gert ráð fyrir að verð íbúðarhúsnæðis muni hækka í rólegum takti næstu ár, þannig að raunverð íbúða hækki um u.þ.b. 1% árlega. Við gerum þannig ráð fyrir u.þ.b. 4% árlegri hækkun íbúðaverðs að jafnaði næstu þrjú árin.
Lesa Hagsjána í heild









