Samantekt
Við teljum mestar líkur á að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að halda stýrivöxtum óbreyttum á næsta fundi nefndarinnar en ákvörðunin verður tilkynnt 14. mars. Stutt er frá síðustu vaxtaákvörðun nefndarinnar en hún var tilkynnt 7. febrúar en þá komu jafnframt út Peningamál með endurskoðaðri þjóðhags- og verðbólguspá. Að okkar mati hafa litlar markverðar breytingar orðið á helstu hagstærðum frá síðustu vaxtaákvörðun þegar allir nefndarmenn voru sammála um óbreytta vexti. Líklegt er því að nefndin komist að sömu niðurstöðu á næsta fundi.
Nýjar þjóðhagsreikningatölur gætu ýtt á vaxtabreytingu
Á föstudaginn koma tölur um þjóðhagsreikninga fyrir fjórða fjórðung síðasta árs. Um leið fæst bráðabirgðamat á hagvexti síðasta árs. Þessar nýju tölur gætu haft áhrif á niðurstöðu nefndarinnar. Seðlabankinn hefur á síðustu fjórðungum fært niður hagvaxtarspá sína fyrir síðasta ár. Nýjasta spá bankans gerir ráð fyrir 3,4% hagvexti á síðasta ári. Komi í ljós kröftugri hagvöxtur en spá Seðlabankans gerði ráð fyrir gæti það aukið líkurnar á vaxtahækkun. Bendi bráðabirgðatölur Hagstofunnar hins vegar til þess að hagvöxtur hafi verið minni en spá Seðlabankans eykur það líkurnar á vaxtalækkun. Hér skiptir þó samsetningin á hagvextinum einnig máli enda hafa einstakir liðir þjóðhagsreikninga mismikil áhrif á framleiðsluspennuna. Sem dæmi væri vaxtahækkun líklegri ef hagvöxtur er fremur knúinn áfram af vexti einkaneyslu en fjárfestingu þar sem hið síðarnefnda dregur úr framleiðsluspennu þegar fram í sækir.