Hagsjá: Spáum lækkun stýrivaxta
Samantekt
Við teljum að peningastefnunefnd Seðlabankans ákveði að lækka vexti um 0,25 prósentur á næsta fundi nefndarinnar, en ákvörðunin verður tilkynnt miðvikudaginn 22. maí. Við útilokum þó ekki að vextir verði lækkaðir meira, en teljum að nefndin muni vilja stíga varlega til jarðar og sjá hvaða áhrif vaxtalækkunin muni hafa áður en frekari skref verði tekin til lækkunar vaxta. Strax í júní er annar vaxtaákvörðunarfundur og nefndinni í lófa lagið að halda þar áfram á sömu braut með frekari lækkun vaxta verði engar óvæntar fréttir í millitíðinni sem dragi úr fýsileika frekari lækkunar vaxta. Við teljum þó líklegt að strax á næsta fundi nefndarinnar í júní verði stigið frekara skref með aðra 0,25 prósentustiga lækkun.