Hagsjá: Miklar hækkanir á fasteignaverði í stærri bæjum á landsbyggðinni
Samantekt
Það hefur margoft komið fram í Hagsjám á síðustu misserum að fasteignaverð í stærri bæjum utan höfuðborgarsvæðisins hefur þróast með svipuðum hætti og á höfuðborgarsvæðinu. Eðli málsins samkvæmt eru sveiflur í fasteignaverði meiri utan höfuðborgarsvæðisins vegna minni viðskipta, en þróunin til lengri tíma sýnir oft meiri hækkanir þar en á höfuðborgarsvæðinu.
Sé leitað í Verðsjá Þjóðskrár Íslands má t.d. sjá að verð hefur hækkað mun meira í stærri bæjum en í Reykjavík á þessu ári. Sé litið á breytinguna frá 2. ársfjórðungi 2016 til sama tíma 2017 hækkaði meðalverð í Reykjavík um 23% á meðan það hækkaði um 48% í Reykjanesbæ og 24% á Akranesi. Það sem af er 3. ársfjórðungi hefur verð hækkað minna í Reykjavík en í hinum bæjunum, en hafa ber í huga að endanlegar tölur eru ekki komnar fyrir 3. ársfjórðung í ár.
Hækkun fasteignaverðs frá 1. ársfjórðungi 2015 hefur verið nokkuð svipuð í þessum bæjum. Verðhækkunin er mest í Árborg og Reykjanesbæ sem skýrist að hluta til af því að verð tók að hækka seinna þar en í hinum bæjunum. Þróunin þar væri svipuð ef lengri tímabil væri skoðað. Það er hins vegar ljóst að höfuðborgin sker sig alls ekki úr í samanburði við þessa stærri bæi. Reyndar er staðan sú að verðhækkanir upp á síðkastið virðist hafa verið minni í Reykjavík og á Akureyri en í hinum bæjunum.
Fermetraverð á eignum er miklu hærra í Reykjavík en í hinum bæjunum fjórum. Sé vegið meðaltal viðskipta á fjölbýli og sérbýli notað sést að fermetraverð í Reykjavík var um 430 þúsund krónur á 2. ársfjórðungi 2016 á meðan það var í kringum 240 þúsund krónur á Akranesi og í Árborg.
Fermetraverðið á Akranesi var því 56% af því sem það var í Reykjavík á 2. ársfjórðungi 2017 og 63% á Akureyri sem kemst næst Reykjavík. Eins og áður segir er hér um að ræða vegið meðaltal fjölbýlis og sérbýlis.
Sé fjölbýli og sérbýli skoðað hvort um sig kemur í ljós að sérbýli hefur hækkað meira en fjölbýli alls staðar nema á Akranesi. Hækkanir eru svipaðar á fjölbýli og sérbýli í Reykjavík og Árborg, en annars staðar er munurinn meiri. Enn og aftur ber að hafa í huga að þarna er um punktmat að ræða og sveiflur geta verið töluverðar á milli ársfjórðunga.
Lesa Hagsjána í heild
Hagsjá: Miklar hækkanir á fasteignaverði í stærri bæjum á landsbyggðinni