Mikil verðlækkun á gistingu hér á landi
Verð á gistingu á hótelum og gistiheimilum hér á landi lækkaði um 12,6% í krónum í fyrra borið saman við árið 2019. Þetta er sögulega mesta verðlækkun á gistingu á einu ári en fyrra met var árið 2019 þegar verð á gistingu lækkaði um 8,3%. Verðlækkun á gistingu hefur verið frekar fátíð hér á landi en frá árinu 1998 má finna tvö önnur ár þar sem verðið lækkaði. Þetta var árið 2005 þegar verðið lækkaði um 4,6% og 1998 þegar verðið lækkaði um 1,3%. Verðlækkun síðustu tveggja ára má fyrst og fremst skýra með minni eftirspurn eftir gistingu hér á landi. Árið 2019 dró úr eftirspurn erlendra ferðamanna vegna falls WOW air og í fyrra voru það áhrif farsóttarinnar.