Hagsjá: Litlar breytingar á vinnumarkaði
Samantekt
Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands voru tæplega 201 þúsund manns starfandi á íslenskum vinnumarkaði í ágúst sem er eilítið minna en í ágúst í fyrra. Sé litið á 12 mánaða hlaupandi meðaltal fjölgaði starfandi fólki um u.þ.b. 5.600 milli ágúst 2016 og ágúst 2017, eða um 3%.
Atvinnuþátttaka er ennþá mjög mikil í sögulegu samhengi og var rúmlega 83% af heildarfjölda virks vinnuafls nú í ágúst, sem er þó lægra hlutfall en í maí og júní. Tólf mánaða meðaltal sýnir að þátttakan er eilítið á niðurleið og hefur verið á milli 83 og 84% síðustu mánuði. Hlutfall starfandi var 81% í ágúst og 12 mánaða meðaltal hlutfallsins var 81% í ágúst, sem er eilítið lægra en það var mánuðina á undan.
Sé Ísland borið saman við önnur lönd sést að atvinnuþátttaka er mun meiri hér en víðast annars staðar og innan OECD er atvinnuþátttakan hæst hér á landi. Sé hlutfall vinnandi fólks af fólki á vinnualdri (15-64 ára) skoðað var hlutfallið hér á landi 89% á árinu 2016, sem er mun hærra en í þeim löndum sem við erum vön að bera okkur saman við.
Samkvæmt mælingum Hagstofunnar var atvinnuleysi 2,5% í ágúst sem er stórt stökk frá 1% mælingunni í júlí. Árstíðasveifla í tölum Hagstofunnar er jafnan mikil og vikmörk 1% atvinnuleysis eru 1,2 stig í báðar áttir. Meðalatvinnuleysi síðustu 12 mánaða var 2,8% í ágúst sem er óbreytt frá fyrri mánuði og lægsta tala frá því í nóvember 2008. Skráð atvinnuleysi samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar var 1,9% í júlí og 2,2% að meðaltali síðustu 12 mánuði.
Vinnutími hefur styst nokkuð síðustu mánuði, samkvæmt tölum Hagstofunnar og fjöldi starfandi verið stöðugur. Það þýðir að fjöldi vinnustunda hefur dregist nokkuð saman. Sé litið á 12 mánaða meðaltöl hefur starfandi fólki fjölgað um 3% og meðalvinnutími lengst um 0,4 stundir. Heildarvinnustundum hefur því fjölgað um 1% á einu ári frá ágúst 2016 til ágúst 2017.
Stór hluti fyrirtækja hefur fram að þessu talið sig búa við skort á starfsfólki og hefur staðan hvað það varðar ekki breyst mikið. Þrátt fyrir litlar breytingar á milli júlí og ágúst er ljóst að vinnumarkaðurinn er mjög kröftugur um þessar mundir. Eins og kom fram í nýlegri Hagsjá er mikilli eftirspurn eftir vinnuafli að mestu leyti mætt með erlendu starfsfólki.